Fara í efni

Fréttir

29.06.2014

Blásvartur bæjarhrafn

Í dag gáfu Vestur-Íslendingarnir Einar og Rosalind Vigfússon Byggðasafni Skagfirðinga útskorinn hrafn, sem Einar skar út. Hrafninn er gefinn til minningar um ömmu og langömmu Einars, sem voru fjósakonur í Glaumbæ. Krummi verður til sýnis í Suðurstofunni í gamla bænum í Glaumbæ, meðal skagfirskra höfðingja og fyrirmenna sem skreyta veggina þar.
13.06.2014

Góðir styrkir

Menningarsjóður KS og Menningarráð Norðurlands vestra hafa styrkt safnið um 1100 þús. kr. á undanförnum dögum til að smíða og kenna að vefa á kljásteinavefstað, til byggðasögurannsókna og til sýningargerðar.
12.06.2014

Ísbjörninn fær nýtt rými

Þá er ísbjörninn sem fóstraður hefur verið í Minjahúsinu sl. sumur kominn í sinn eigin klefa í húsinu og þarf ekki lengur að standa inni á verkstæðistorgi. Minjahúsið er opið alla daga frá 12 til 19.
04.06.2014

Skáli frá 11. öld fundinn á Hamri í Hegranesi

Undanfarnar tvær vikur hafa starfsmenn Fornleifadeildar Byggðasafnsins unnið við fornleifauppgröft á Hamri í Hegranesi þar sem á að byggja við íbúðarhúsið. Það stendur á sama stað og bæir stóðu fyrr á öldum og því var nauðsynlegt að kanna fornleifar á byggingarsvæðinu áður en grunnur yrði tekinn. Undir lok rannsóknartímans kom í ljós 11. aldar skáli, sem sennilega er elstu byggðarleifar þar á bæ.
21.05.2014

Skotar í heimsókn

Í Skagafirði er hópur Skota sem þiggur og veitir góð ráð í minjavörslu og menningarferðamennsku. Hópurinn er hér á vegum Fornverkaskólans og er kostaður af styrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins. Þetta er þriðji sex manna hópurinn sem kemur frá Skotlandi á jafn mörgum árum til að skoða hvernig og hvað við gerum í Skagafirði.
03.05.2014

Vefnaðarnámskeið

Helgina 3.-5. maí stendur yfir vefnaðarnámskeið á vegum Byggðasafns Skagfirðinga og Fornverkaskólans. Námskeiðið er haldið í Auðunarstofu, á Hólum í Hjaltadal.
02.05.2014

145 rannsóknarskýrslur

Nú má lesa flestar útgefnar rannsóknarskýrslur Byggðasafnsins á Gagnabanka hér á heimasíðu safnsins.
22.04.2014

Samstarf Byggðasafns Skagfirðinga og Minjastofnunar Íslands

Dagana 19.-20. mars 2013 var Evrópuverkefninu LoCloud Best Practice Network formlega hleypt af stokkunum á Þjóðskjalasafni Noregs í Ósló. Á fundinn mættu 32 samstarfsaðilar frá 28 mismunandi löndum til að kynna, skipuleggja og ræða starfsemi verkefnisins sem er til þriggja ára. Efni frá litlum og meðalstórum stofnunum í Evrópu, svo sem söfnum og skjalasöfnum, er að miklu leyti óaðgengilegt á stafrænu formi. Tækni sem byggir á notkun hinna svokölluðu tölvuskýja gæti boðið upp á ódýra og notandavæna lausn til að gera efni þessara aðila aðgengilegt á netinu. LoCloud verkefnið miðar að því að þróa tölvuský og þjónustumiðstöðvar (e. help center) til að hjálpa litlum og meðalstórum stofnunum við að safna saman stafrænum gögnum og gera þau aðgengileg á netinu í gegnum Europeana.eu, European Library, Museum and Archive. Minjastofnun Íslands er samstarfsaðili í LoCloud verkefninu og óskaði eftir þátttöku Byggðasafnsins sem mun leggja til efni úr rannsóknum og taka þátt í að prófa og meta notkunarmöguleika tölvuskýsins. Það efni sem verður notað í verkefninu eru stafræn gögn úr byggðasögurannsóknum sem nefndar hafa verið Eyðibyggð og afdalir Skagafjarðar en starfsmenn Byggðasafnsins hafa unnið að þeim á undanförnum árum ásamt riturum Byggðasögu Skagafjarðar. LoCloud verkefninu lýkur í árslok 2015 og er ætlunin að þá verði aðgangur að þessum rannsóknum aðgengilegur almenningi á netinu.
10.04.2014

Sumarfstarfsfólk

Safnið auglýsir eftir sumarstarfmönnum fyrir tímabilið 20. maí til 20. september.
27.03.2014

Safnasjóðsstyrkir

Safnaráð hefur úthlutað styrkjum til verkefna og reksturs viðurkenndra safna. Byggðasafn Skagfirðinga hlýtur 3,2 millj. kr. úr safnasjóði á árinu 2014.