Fara í efni

Skúfhólkurinn með fjallkonunni

Skúfhólkar eru eitt af sérkennum íslenskra þjóðbúninga. Þeir voru settir á samskeyti skotts og skúfs á skotthúfum sem konur gengu með við peysuföt og upphlut. Fallegur skúfhólkur var mikil höfuðprýði. Þeir voru til úr ýmsum málmtegundum og efni. Stundum var fagurlega útsaumaður flauelshólkur í stað málmhólks eða fallega snúrað band fyrir hólkinn.

Fjallkonan sem persónugerfingur fyrir Ísland mun fyrst hafa komið fyrir í ljóðum Eggerts Ólafssonar (1726-1768). Fyrirmyndin að þessari konumynd er hins vegar greinlega sú sem Benedikt Gröndal teiknaði á minningarspjald í tilefni þjóðhátíðarinnar 1874 og náði mikilli útbreiðslu. 

Þessi fallegi skúfhólkur er til sýnis í gersematurni Minjahússins á Sauðárkróki. Hann er af skotthúfu sem Sigurjón Sveinsson frá Byrgisskarði gaf safninu. Hólkurinn er úr silfri, 5,4 cm langur og 1,7-2 cm í þvermál. Helga Hjálmarsdóttir (1847-1916),  í Bakkakoti, Lýtingsstaðahreppi, amma Sigurjóns, átti gripinn.