Fara í efni

Karfa Fjalla-Eyvindar

Á skáphillu inni í Gusu í gamla bænum í Glaumbæ er þessi tágakarfa (BSk. 342) sem riðin er úr víðitágum (rótum).

Hún tekur um 1,5 ltr. Hún  er 10,9 cm há og er 13-13,3 cm að þvermáli. Eftir það dregst hún jafnt að sér til botns, sem er um 10,5 cm í þvm. Lokið vantar og upprunalegur botn er farinn, en negldur hefur verið í kringlóttur furubotn. Þegar karfan kom á safnið fylgdi henni svohljóðandi greinargerð: „Karfa þessi er fundin - um 1880 - í kofarústum Fjalla-Eyvindar á Hveravöllum af Margréti Jónsdóttur á Stóru-Seylu (Holtskoti) en hún var þar í grasaferð. Lok körfunnar var þá ónýtt. Margrét gaf Birni Gíslasyni - þá í Glaumbæ, 10 ára, körfuna (1910) og hefur hann átt hana síðan, en gefur hana nú til Glaumbæjar 8.4. 1954. Frá Birni Gíslasyni í Reykjahlíð við Varmahlíð". Í Þjóðminjasafni (Þjms. 1627) er karfa nokkru stærri en þessi en með svipuðu lagi og heil, og er hún talin eftir Eyvind. Er mjög svipað eða sama handbragð á báðum körfunum, og mætti af því einu ætla þær riðnar af saman manni. Eyvindur kvað hafa verið snillingur að ríða körfur (karfir) og þær vatnsheldar.