Fara í efni

Rannsóknir

Yfirstandandi rannsóknir

 

Tyrfingsstaðir á Kjálka, Skagafirði.

Tyrfingsstaðaverkefnið

Tyrfingsstaðaverkefnið, svokallaða fellur undir þá viðleitini safnsins að rannsaka og varðveita torfminjaarf Skagfirðinga. Jafnhliða niðurtöku húsa, húshluta, og viðgerðum á Tyrfingsstöðum eru efni og aðferðir skráð og mynduð. Á Tyrfingsstöðum mynda bæjar- og útihús einstæða minjaheild sem vert er að læra af og varðveita.

Torfhúsaverkefnið

Á árinu 2021 fékk Byggðasafn Skagfirðinga styrk frá Minjastofnun Íslands til þess að skrá uppistandandi torfhús í fyrrverandi Lýtingsstaða- og Seyluhreppi, og Akrahreppi. Markmið með verkefninu var að fá yfirlit yfir fjölda, ástand, hlutverk og gerð torfhúsa í þessum hreppum og í framhaldinu í Skagafirði öllum. Slíkt yfirlit hefur aldrei verið tekið saman og er forsenda þess að hægt sé að móta stefnu um verndun torfhúsa. Safnið naut áframhaldandi stuðnings frá Minjastofnun árið 2022 þar sem ætlunin er að ljúka við skráningu torfhúsa í Skagafirði. Hér má fylgjast með framvindu verkefnisins:

  • Þann 2. desember 2022 kom út skýrsla sem fjallar um uppistandandi torfhús í fyrrum Seylu-, Akra-, og Lýtingsstaðahreppi. Í skýrslunni er fjallað um ríflega 40 torfhús og þar af eru ein 35 sem enn geta talist uppistandandi. Fjöldi mynda prýðir skýrsluna og fylgir hverju húsi stutt söguágrip og lýsing. Hér er hlekkur á skýrsluna: Torfhús í Skagafirði. Akrahreppur, Lýtingsstaðahreppur og Seyluhreppur.

Eldri rannsóknir

Skagfirska kirkjurannsóknin

Skagfirska kirkjurannsóknin var þverfagleg rannsókn sem fram fór á vegum Byggðasafns Skagfirðinga. Rannsóknin beindist einkum að fornum kirkjugörðum og kirkjumunum. Rannsóknin hófst árið 2007. Upphaf hennar má rekja til áranna 1999 og 2003 þegar safnið hélt sýningu um forna kirkjumuni á Hólum í tilefni kristnitökuafmælishátíðarhalda (999/1000) og þegar Byggðasafnið og Hólarannsóknin, sem safnið var þá í samstarfi um við Hólaskóla og Þjóðminjasafn Íslands, hóf rannsókn á 11. aldar kirkjugarði í Keldudal í Hegranesi. Keldudalskirkjugarður kom óvænt fram við byggingaframkvæmdir. Guðný Zoëga, fornleifafræðingur og fyrrum deildarstjóri Fornleifadeildar Byggðasafnsins, stýrði rannsókninni í Keldudal og hefur unnið úr öllum gögnum sem snertir hana.

Sigríður Sigurðardóttir, sagnfræðingur og fyrrverandi safnstjóri Byggðasafnsins, hefur skráð og rannsakað kirkjumuni í flestum kirkjum Skagafjarðar. Samantekt um merkustu kirkjumuni í tólf friðlýstum kirkjum prófastsdæmis voru birtar í ritröðinni Kirkju Íslands, bindi 5 og 6, sem kom út 2005. Aðrir starfsmenn safnsins sem unnu að rannsókninni voru Guðmundur St. Sigurðarson, fornleifafræðingur og Bryndís Zoëga, landfræðingur. Rannsóknin sameinaðist við byggðaþróunarverkefni rannsóknarteymis frá UMASS Boston háskóla í Bandaríkjunum sem hafði unnið við fornleifa- og jarðsjárrannsóknir í Skagafirði frá árinu 2002. Verkefnið hlaut þá heitið Skagfirska kirkju og byggðasögurannsóknin (e. Skagafjörður Church and Settlement Survey (SCASS)). Hér má nálgast skýrslur um niðurstöður hennar.

Gamlar torf- og grjóthleðslur í Skagafirði 1987-2017

Á tímabilinu 1987-2001 fóru starfsmenn Byggðasafns Skagfirðinga gagngert í vettvangsferðir til að kanna og meta leifar torf- og grjóthlaðinna mannvirkja, í þeim tilgangi að greina mismunandi gerðir hleðsluefnisins, hvort munur var á notkun þess eftir því hvar mannvirki var staðsett og hvrt hlutverk þess var. Upphaflega hugmyndin var að skrá allar sjáanlegar torf- og grjóthleðslur í Skagafirði til að gera heildstæða skráningu sem gæfi yfirlit yfir hleðslugerðir á 20. öld, hvernig torfhús litu út og hvaða efni var algengast.

Sigríður Sigurðardóttir sagnfræðingur og fyrrverandi safnstjóri tók saman helstu niðurstöður rannsóknarinnar og kom skýrslan  árið 2018. Skýrslan nær ekki yfir allar torf- og grjóthleðsluleifar sem hægt var að finna í Skagafirði heldur eru talin upp sýnishorn sem segja má að vel gæti verið nokkuð dæmigerð um torf- og grjóthlaðin mannvirki í Skagafirði. Hér má nálgast skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar.