Fara í efni

Mannlíf í torfbæjum

Baðstofan í Glaumbæ

Megin sýning Byggðasafns Skagfirðinga Mannlíf í torfbæjum á 19. öld var opnuð þann 15. júní 1952 í Glaumbæ, en búið var í bænum til 1947 og í nokkur sumur eftir það. Bæjarhúsin eru misgömul. Yngst eru Norðurskemma og svokölluð Suðurstofa frá 1879, en eldhús og búr eru frá miðri 18. öld. Bærinn er gangnabær af stærstu gerð og snúa sex burstir fram á hlað. Bærinn er um 730 fermetrar að umfangi.

Á sýningunni í bænum er áhersla lögð á aðbúnað fólks við matargerð og daglegt líf. Í eldhúsinu eru hlóðir þar sem maturinn var soðinn. Hann var geymdur í tunnum og sám í búrunum og skammtaður í aska eða skálar og borinn til fólksins sem sat á rúmum sínum í baðstofunni á meðan það mataðist. Aðalfæðan var harðfiskur og súrmatur, sem var á borðum árið um kring.

Húsaskipan þessa aldna stórbýlis og hversdagsáhöldin í sínu eðlilega umhverfi bera glöggt vitni um horfna tíð og daglega iðju fólksins.  Hér má sjá nánar um húsaskipan í Glaumbæ.