Fara í efni

Monika frá Merkigili

Munir úr búi Moniku Helgadóttur, átta barna móður og bónda á Merkigili, eru til sýnis á Áshúsloftinu. Varpað er ljósi á umhverfi og innastokksmuni á bændabýlum um miðja 20. öld um leið og sögð er saga atorkukonu og húsmóður á umbyltingatímum þar sem nýtni og útsjónarsemi skipti megin máli. Í bland eru munir úr eldri búum, nýir og heimasmíðaðir.

Monika fæddist á Ánastöðum í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði árið 1901. Rúmlega tvítug varð hún ráðskona á Merkigili í Austurdal í Skagafirði og giftist Jóhannesi Bjarnasyni bónda þar 2 árum síðar og bjó þar nánast til dánardags.

Merkigil er afar afskekktur bær, umkringdur djúpum og miklum árgljúfrum, háum fjöllum og óbyggðum. Ferðir að bænum kröfðust þess að farið væri yfir Merkigil, sem er óhugnalegt klettagil. Aðkoman var því afar erfið og þótti það helsti ókostur jarðarinnar. Merkigil er í dag eyðibýli en þótti góð bújörð á sínum tíma. Monika og eiginmaður hennar voru talin dugleg hjón og samhent. Þau eignuðust 7 dætur og 1 son. Eiginmaður hennar lést fyrir aldur fram og Monika varð ekkja og einstæð með 8 börn á framfæri, það yngsta aðeins 16 daga gamalt.

Monika hélt áfram búskap á Merkigili ásamt börnum sínum og réðst í það stórvirki að byggja þar reisulegt steinsteypt íbúðarhús árið 1949. Allt byggingarefni og innbú var flutt þangað á hestum, sem þótti bera merki um einstakt viljaþrek og þrautseigju. Börn hennar fluttu síðar burt og stofnuðu eigin heimili. Árið 1974 flutti Helgi Jónsson að Merkigili og gerðu þau samkomulag um að Helgi fengi jörðina ef hann hjálpaði henni með búskap og fleira.

Það var ýmislegt sem Monika aðhafðist í sinni tíð. Hún barðist lengi og hart fyrir því að fá brú yfir Jökulsá Eystri, áin er kröftug og setur svip sinn á dalinn. Baráttan skilaði sínu árið 1961, brúin var byggð og er oft nefnd Monikubrú. Monika sótti kirkju í Ábæjarprestakall og annaðist kirkjustaðinn af ástríðu á meðan kraftar og heilsa leyfðu. Þar að auki var hún mikil hannyrðakona og má finna verk eftir hana m.a.  sýningunni í Áshúsi.

Monika varð þjóðkunn þegar hún var sæmd Fálkaorðunni árið 1953 fyrir búskaparafrek við erfiðar aðstæður og enn fremur ári síðar þegar út kom bók Guðmundar G. Hagalín, ‘Konan í dalnum og dæturnar sjö’, þar sem fjallað er um lífshlaup hennar og hafa margir titlað hana táknmynd íslensku sveitakonunnar.

Monika lést árið 1988, þá 87 ára. Síðustu mánuðina dvaldi hún á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki vegna heilsubrests.