Fara í efni

Safnstefna

Markmið Byggðasafns Skagfirðinga er að safna, skrá, varðveita og rannsaka muni og minjar sem hafa sögulegt gildi fyrir íbúa Skagafjarðar og miðla upplýsingum um þau. Lögð er áhersla á að safna og varðveita heildir um mannlíf, heimilishald, landnýtingu og horfna starfshætti og á það sem kalla má einkenna daglegt líf, híbýli, matargerð í torfbæjum og hreinlæti, torfvinnu og torfhleðslu, félags- og menningarsögu.

Á liðnum árum hefur safnið átt gott samstarf við ýmsar stofnanir, félög og einstaklinga, sem eflir og auðgar starfsemi safnsins á margvíslegan hátt. Í gildandi safnstefnu 2019-2023 er lögð sérstök áhersla mikilvægi þess að leggja rækt við og efla tengsl safnsins við nærsamfélagið með markvissum hætti. Það er m.a. gert með því að ná til barna, ungmenna og fjölskyldufólks t.d. með því að standa fyrir viðburðum og vera sýnilegri á samfélagsmiðlum.

Fjöldi nemenda af öllum skólastigum sækir fræðslu til safnsins, sem tekur á móti fróðleiksfúsum hópum og einstaklingum allan ársins hring eftir því sem aðstæður leyfa. Ef leitað er eftir sérstöku efni, öðru en því sem felast í sýningum safnsins, eða útgefnu efni, þá er bara að senda inn fyrirspurn á byggdasafn@skagafjordur.is eða hringja í síma 453 6173.

Safnstefnuna í heild sinni má nálgast hér.
Hér má lesa stofnskrá safnsins.