Fara í efni

Viðburðaríkt ár með tæplega 38 þúsund gestum

Glaumbær

Við óskum landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þökkum gestum, samstarfsfólki og velunnurum fyrir árið sem var að líða. Þá er rétt að líta um öxl og horfa yfir farin veg. Nú er annað óvenjulegt ár, með takmörkunum og grímuskildu, gengið í garð hjá Byggðasafni Skagfirðinga.

Þrátt fyrir að sumarið hafi byrjað rólega og gestafjöldi í júní hafi verið langt undir meðaltali með 3842 gesti í Glaumbæ og Víðimýrarkirkju fyrstu sex mánuði ársins. Heimsóknartölur tóku heldur betur við sér í júlí og nú í árslok höfðu 37.842 gestir sótt safnið heim, 31.835 júlí, ágúst og september. Þá hafa aldrei fleiri gestir heimsótt safnið í ágúst og september. Aðsóknin er því nálægt því sem við áttum að venjast fyrir tíma COVID.

Gestir Byggðasafns Skagfirðinga á árinu 2021.
Á mynd til vinstri má sjá fjölda gesta í Glaumbæ og í Víðimýrarkirkju frá 2016 til ársins 2021.
Til hægri er hægt að sjá dreifingu gesta í Glaumbæ eftir mánuðum frá 2015 til 2021.
Þarna sést hvernig fjöldi gesta færðist aftar á árinu, með mesta heimsóknarfjölda í ágúst. 

Við teljum helstu skýringuna á þessari aukningu vera vegna þess að í vor var safnsvæðinu lokað og nýtt miðasöluhús tekið í notkun og þarf því nú að kaupa miða til að ganga um grundir safnsins. Þetta hefur gefið góða raun en með þessu er verið að reyna að hlúa meira að gamla bænum og umhverfi hans með því að stýra betur umferð fólks á svæðinu ásamt því að bæta safnaupplifun gesta. Þá má einnig leiða líkur að því, miðað við tölur sumarsins, að lokun safnsvæðis hafi haft jákvæð áhrif á miðasölu.

Það var þó fleira óvenjulegt þetta sumarið heldur en COVID þar sem tvær stórar breytingar urðu á safnsvæðinu. Rekstrarfyrirkomulagið á kaffistofunni í Áshúsi breyttist líka, en hún var nú í sumar í fyrsta sinn rekin af safninu. María Eymundsdóttir stóð sig með mikilli prýði í nýju hlutverki sem Verkefnastjóri matarupplifunar og safnverðirnir sömuleiðis sem þjónar og vakti kaffistofan mikla lukku meðal safngesta.

Við minnum íbúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps á að þeir þurfa einungis að fjárfesta einu sinni í miða árlega, þar sem miðinn gildir í heilt ár frá kaupum, og íbúarnir á svæðinu geta þannig komið í kjölfarið eins oft og þá lystir á sýningar, viðburði og kaffistofu safnsins.

Á Mark Watson deginum GlaumbæMeð COVID hafa komið ýmsar áskoranir fyrir söfn og á sama tíma tækifæri til þróunar á safnastarfi þegar kemur að stafrænum lausnum. Starfsmenn safnsins sóttu fjölmargar ráðstefnur þessa árs á netinu og á Alþjóðlega safnadeginum í ár var lögð áhersla á notkun samfélagsmiðla og var Byggðasafnið af því tilefni með rafræna leiðsögn um gamla bæinn en hana má nálgast á Facebook-síðu safnsins. Safnið var þó líka með viðburði í raunheimum en að venju var Mark Watson dagurinn í Glaumbæ, sem haldinn er 18. júlí ár hvert, vel sóttur af bæði tví- og fjórfætlingum.

Berglind Þorsteinsdóttir, safnstjóri, færði Guðna Th. Forseta Íslands barnabókina „Sumardag í Glaumbæ“ fyrir hönd safnsins en gaman er að segja frá því að ein af heimildunum fyrir barnabókina, nánar tiltekið þar sem Ropa-Katrín kemur við sögu, er bókin „Tvennir tímar“, endurminningar Hólmfríðar Björnsdóttur Hjaltason eftir Elínborgu Lárusdóttur. Það vill svo til að hún Hólmfríður er langamma Guðna Th.Í haust varð síðan breyting á sýningum á efri hæð Áshússins þegar sett var upp ný sýning sem stóð í nokkrar vikur í tilefni af útgáfu bókarinnar „Sumardagur í Glaumbæ“ en bókin er samstarfsverkefni Berglindar Þorsteinsdóttur safnstjóra og Jérémy Pailler listamanns. Bókin var gefin út á fjórum tungumálum og fæst í safnbúðinni í Glaumbæ fyrir áhugasama, einnig í Skagfirðingabúð, Kakalaskála, Snorrastofu í Reykholti, Minjasafninu Akureyri, Þjóðminjasafni Íslands og öllum helstu verslunum Pennans.

Það er þó ekki bara nóg að gera á sýningum safnsins heldur hefur fornleifadeildin haft nóg fyrir stafni í skráningum og rannsóknum. Þessa stundina er m.a. spennandi verkefni í gangi þar sem unnið er að því að skrá öll uppistandandi og hálfuppistandandi torfhús í Skagafirði. Í Skagafirði er að finna nokkurn fjölda uppistandandi torfbygginga, allt frá litlum kofum og útihúsum til torfkirkna og stórra torfbæja. Nokkur þessara húsa eru í Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands en önnur í einkaeigu. Sem stendur er ekki til heildaryfirlit yfir þessi hús og teljum við mikilvægt að ráðast í skráningu þeirra til að öðlast yfirsýn yfir málaflokkinn, hversu mörg hús eru eftir af hverri gerð og byggingaraðferð. Slík yfirsýn getur verið mikilvægt tæki við forgangsröðun í minjavernd og einnig til að fá betri skilning á raunverulegu gildi og fágæti viðkomandi torfhúsa. Við skráninguna gefst tækifæri til að draga fram allar helstu upplýsingar um torfhúsin áður en þau falla og hverfa, s.s. byggingaraðferðir, svæðisbundin einkenni o.s.frv.

Frá vel heppnuðu námskeiði Fornverkaskólans á TyrfingsstöðumÍ ár tók Fornverkaskólinn líka aftur upp þráðinn í námskeiðahaldi en námskeið síðasta árs féllu niður vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Vel heppnað námskeið fór fram á Tyrfingsstöðum 10. – 12. september en verkefnið sem hópurinn tók sér fyrir hendur á námskeiðinu var að hækka veggi hlöðunnar sem stendur norðan við gamla bæjarhúsið.

Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga færir gestum safnsins hjartans þakkir fyrir komuna í Glaumbæ og Víðimýri á liðnu ári!