Fara í efni

Sameiginlegt tákn safnanna í Skagafirði

Byggðasafn Skagfirðinga, Héraðsbókasafn Skagfirðinga, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga og Listasafn Skagfirðinga tóku sig saman og létu hanna fyrir sig nýtt auðkenni safnanna. Nýtt og sameiginlegt auðkenni er tákn um vilja safnanna til aukins samstarfs sín á milli, sem öll sinna skagfirskum menningararfi. Gengið var til samninga við Þórhall Kristjánsson grafískan hönnuð hjá Effekt hönnun slf., um hönnun auðkennisins. Leitað var innblásturs á meðal prýðisgripa sem varðveitt eru hjá Byggðasafni Skagfirðinga með áherslu á útskurð, en það er gott dæmi um alþýðulist sem tengja öll söfnin saman. Útskurður var ein af þeim aðferðum sem Íslendingar notuðu öðrum fremur til að fegra umhverfi sitt í árhundruð. Gripirnir voru sjaldan merktir höfundi en stundum var hægt að greina höfundareinkenni í stíl og myndmáli útskurðar. Útskurðurinn sem er fyrirmynd auðkennisins prýðir kistil sem var í eigu Guðrúnar Björnsdóttur frá Skíðastöðum í Laxárdal (BSk 857 – sjá meðfylgjandi mynd). Hann er sérlega fallegur og vel varðveittur en hann var gefinn til safnsins fyrir tæpri hálfri öld (1972).

Kistillinn sjálfur er frá árinu 1767 og er ártalið rist á framhlið hans, listamaðurinn er óþekktur. Útskurðartáknið á hlið kistilsins fangaði athygli okkar þar sem myndmál þess getur vel táknað söfnin fjögur, eitt lauf stendur fyrir hvert safn, sem tengjast innan banda Skagafjarðar og skagfirsks menningararfs. Auðkennin eru eins en hvert safn er með sinn lit og þar af leiðandi sitt sérkenni. Litavalið eru hefðbundnir jarðlitir en litina má finna allt frá vefnaði úr jurtalituðu bandi yfir í blæbrigði torfsins, og í verkum Jóhannesar Geirs – þeir tóna vel saman og eiga skírskotun í skagfirskan menningararf.

Nýja safnmerkið. Kistillinn.