Fara í efni

Kljásteinavefstóllinn

     

Kljásteinavefstóll (vefstaður) að norskri miðaldagerð var smíðaður í júní og settur upp í Auðunarstofu hinni nýju og verður þar til sýnis á komandi árum. Byggðasafn Skagfirðinga stóð straum að kostnaði við smíðina en fyrirhugað er að hann verði notaður á námskeiðum Fornverkaskólans er fram líða stundir. Smíðin er afurð samstarfs safnsins við Safnamiðstöð Hörðalands í Noregi.

Dagskrá Hólahátíðar hófst föstudagskvöldið 10. ágúst 2012 með fyrirlestri Ragnheiðar Þórsdóttur vefara, í Auðunarstofu. Þar fjallaði hún um miðaldavefnað og hvernig ofið var við kljásteinavefstólinn. Daginn eftir sýndi hún röggvarfeldsvefnað. Röggvarfeldur var ofinn loðfeldur, þar sem toglokkar (röggvar) eru ofnir í uppistöðu úr ullarbandi. Þessi gerð vefstóls er kennd við kljásteinana sem halda vefnum niðri. Á kljásteinunum eru göt sem uppistöðuþræðirnir eru festir í. Vefstólar af þessari gerð hurfu fyrir hraðskyttuvefstólum á 19. öld.  

Stóllinn er til sýnis í Auðunarstofu hinni nýju á Hólum í Hjaltadal.