Fara í efni

Brúðan hennar Sissu

Brúðu (BSk.1993-3/1523) þessa gaf Sigríður Hjálmarsdóttir (f. 1918) frá Tungu í Stíflu safninu. Sigríður eða Sissa eins og hún var alltaf kölluð bjó í Viðvík, á Sauðárkróki og víðar. Brúðan sem er um 40 cm há er einstaklega falleg og búningurinn vel unninn. Hann er saumaður um 1970 af Sigríði Jónsdóttur systurdóttur Sissu. Sigríður var hannyrðakennari og mikil saumakona. Um skeið var hún þekkt sem konan sem saumaði prestakragana.

Búningurinn samanstendur af: svörtum prjónuðum hnésokkum, svörtum hvítbrydduðum spariskóm úr sauðskinni. Svörtu pilsi úr glansandi efni. Svuntan er köflótt, blá, svört og rauð úr bómullarefni, hneppt að aftan með skrautlegum hnappi. Treyjan er svört úr „jersey"-efni, hneppt með litlum tölum. Hyrnan er prjónuð með garðaprjóni úr grárri og hvítri ull. Skotthúfan er úr ullarefni og skúfurinn úr glansandi svörtu bómullargarni. Hólkurinn er afar lítill um 2,2 cm langur og miklu eldri en búningurinn. Hann er úr silfri og var áður í eigu Sigríðar Guðvarðardóttur, Móafelli í Stíflu (d. 1955). Brúðan er til sýnis í Áshúsi.

Með brúðunni á myndinni er jólasveinn sem keyptur var í kaupfélaginu í kring um 1970.