Fara í efni

Safneign

Byggðasafn Skagfirðinga varðveitir þúsundir lausa muni. Upplýsingar um stærsta hluta safnkostsins eru nú aðgengilegar almenningi í menningarlega gagnagrunninum sarpur.is

Söfnunarstefna

Hver gripur, hver minning, hvert merki um mannlíf er fjársjóður fyrir framtíðina ef vel er varðveitt. Allt hefur þó sín takmörk. Ekki er endalaust hægt að taka við munum og rannsóknir, miðlun og varðveislu þarf að sníða að möguleikum hverju sinni. Markmið Byggðasafns Skagfirðinga er að safna, skrá, varðveita og rannsaka muni og minjar sem hafa sögulegt gildi fyrir íbúa Skagafjarðar og miðla upplýsingum um þau. Lögð er áhersla á að safna og varðveita heildir um mannlíf, heimilishald, landnýtingu og horfna starfshætti og á það sem kalla má einkenna daglegt líf, híbýli, matargerð í torfbæjum og hreinlæti, torfvinnu og torfhleðslu, félags- og menningarsögu. Hér að neðan eru nánari upplýsingar um söfnunarstefnu safnsins. 

Helstu muna- og heimildasöfnunarflokkar safnsins eru:

Atvinnuhættir

Landbúnaður
Safnað er munum sem varpa ljósi á búskapar­hætti, með áherslu á notkun hestsins. Landbúnaðarvélum er ekki safnað nema í einstaka undantekningartilfellum.

Sjávar- og vatnanytjar
Einstaka gripir sem tengjast hlunnindum eru teknir í safnið, s.s. veiðarfæri úr ám og vötnum, við dýra- og fuglaveiði, s.s. flekaveiði við Drangey. Hvorki er safnað bátum né veiðarfærum sem tengjast sjávarútvegi. Bjóðist safninu sjósóknar­minjar er bent á Síldarminjasafnið á Siglufirði eða önnur sjóminjasöfn.

Verslun og viðskipti
Munir sem varpa ljósi á verslunarhætti smá­verslana eru gildir. Öðrum verslunarminjum er vísað til nálægra verslunarminja-safna eða til sérsýninga í samvinnu við aðra.

Iðnaður
Safnað er munum af 20. aldar verkstæðum sem sýna þróunina á 20. öld og brúa bilið milli eldsmiðja og verksmiðja, frá heimilisiðnaði til fjöldaframleiðslu. Engu er safnað sem flokkast undir verksmiðjuvinnu eða fjöldaframleiðslu. Þannig munum verður beint til Síldarminja­safnsins á Siglufirði og Iðnaðar­minjasafnsins á Akureyri.

„Heimilisiðnaður“
Einkum er safnað munum sem tengjast tóvinnu, útskurði, einnig verkfæri gull-, silfur- og járnsmiða.

Torf og notkun þess
Safnið stendur að heimildaöflun um torf­byggingar á starfssvæði sínu, efni og tækni og miðla til almennings.

Heimilishættir, híbýli

Lögð er áhersla á að safna munum og öðrum heimildum um aðbúnað í torfbæjum, hreinlæti og persónulega hagi, einkum sem tengjast breytingatímum undir lok 20. aldar þegar heimilisbragur umbyltist á skömmum tíma.

Textíll
Safnað er munum sem tengjast sérstökum við­fangsefnum og tísku og dæmum um klæðaburð við hin ýmsu tækifæri, þó ekki í stórum stíl.

Ljós
Safnað er ljósfærum og hitunartækjum.

Húsgögn
Lögð er áhersla á innanstokksmuni úr torfbæjum og 20. aldar húsbúnað.

Fjölskylduhættir
Safnað er leikföngum og öðrum heimildum um fjölskylduhætti á seinni hluta 20. aldar. Áhersla er þó frekar á söfnun munnlegra heimilda og ljósmynda fremur en muna í þessum flokki.

Safnað er munum sem tengjast farskólum og kvennaskólahaldi á Löngumýri.

Samgöngur

Safnað er munum sem tengjast ferðalögum og búferlaflutningum á milli byggða/landa, fótgangandi og á hestum. Engin áform eru um að safna bílum, flugvélum, skipum eða póst- og símaminjum.

Stjórnsýsla

Örfáir munir eru til af stjórnsýslusviði, svo sem innsigli. Þeim er ekki safnað markvisst en tekið er við munum af því tagi.

Safnið tekur ekki við eftirfarandi söfnunarflokkum:

Fornleifar
Jarðfundnir gripir 100 ára og eldri eru ekki vistaðir á safninu nema með samþykki Þjóðminjasafns Íslands.

Ljós- og prentmyndir
Safnið á safn mannamynda, eftirtökur, til sýningahalds. Ljósmyndir sem safnast tengjast uppsetningu sýninga og rannsóknum. Ljósmyndir sem berast safninu eru afhentar Héraðsskjalasafni Skagfirðinga til varðveislu.

Myndlist
Einungis er tekið við mynd- eða listaverkum sem tengjast húsbúnaði eða öðru sem telst sérlega áhugavert til sýningahalds. Listaverkum er beint til Listasafns Skagfirðinga.

Flokkar utan söfnunarstefnu safnsins

Ekki er tekið við munum sem tengjast heilsugæslu eða náttúru og ekki er tekið við skjölum og handritum nema í algjörum undantekningartilfellum. Verði safninu boðið þesskonar efni er bent á: Þjóðminjasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, eða önnur söfn.

Safnið tekur við munum samkvæmt framsettri safnstefnu. Samkvæmt samningi við Vesturfarasetrið á Hofsósi árið 1996 og við Sögusetur íslenska hestsins árið 2007 tekur safnið við munum sem Setrunum berast til skráningar og varðveislu, samræmist þeir stefnu safnsins um söfnun muna sem tengjast búferla­flutningum og notkun hestsins.