Fara í efni

Nýr Verkefnastjóri matarupplifunar

Við bjóðum Völu Maríu Kristjánsdóttur hjartanlega velkomna til starfa en hún er nýr Verkefnastjóri matarupplifunar safnsins. Hún hefur því tekið við svuntunni í Áshúsi og mun sjá um kræsingarnar þar á borðum.
 
Vala er að mestu uppalin á Sauðárkróki, en bjó í Reykjavík frá 5-12 ára aldurs. Hún er annars vegar ættuð frá Róðhóli í Sléttuhlíð og hins vegar frá Vallholti og Eyjafirði, dóttir Kristjáns B. Jónssonar og Rögnu Hrundar Hjartardóttur. Vala er viðskiptafræðingur að mennt og hefur alltaf haft mikinn áhuga á bakstri og matseld og að taka vel á móti fólki.
 
„Ég er mjög spennt fyrir þessu starfi og hlakka til þess að bera fram kræsingar í anda þess sem tíðkaðist hér áður fyrr. Það voru ófá sumrin sem ég varði hjá ömmu og afa á Sauðárkróki og í sveitinni hjá ömmu og afa á Róðhóli og þar var oft á borðum alls konar kökur og bakkelsi, sem verður minn innblástur í veitingaúrvalið í Áshúsi.“ segir Vala María og hlakkar til að taka vel á móti gestum Áshúss þegar kaffihúsið opnar 20. maí næstkomandi.