Fara í efni

Fræðsla fyrir skóla- og frístundahópa

Byggðasafn Skagfirðinga býður upp á fræðslu og tekur á móti skólahópum á öllum námsstigum, allt frá leikskólabörnum til háskólanema. Fræðslan er ókeypis fyrir alla skólahópa á öllum skólastigum og hópa í skipulögðu frístundastarfi. Hægt er að sníða leiðsögnina að þörfum og áherslum hvers hóps, og hvetjum við kennara og leiðbeinendur til að hafa samband (byggdasafn@skagafjordur.is) ef óskað er eftir sérstakri nálgun eða efnistökum.

  • Safnið stendur fyrir ýmsum námskeiðum og fræðsluviðburðum en hægt er að sjá hvað er á döfinni hjá safninu hér.
  • Nálgast má m.a. fróðleg smárit hér.
  • Þá má finna alls konar fróðleik á Facebook- og Instagram-síðu safnsins.

Athugið: Bóka þarf alla hópa sem hyggjast heimsækja safnið, hvort sem þeir ætla sér að þiggja fræðslu eða ekki.

Safnabingó

Við bjóðum upp á safnabingó á mismunandi erfiðleikastigum fyrir skólahópa. Markmiðið er að finna ákveðna gripi í torfbænum og merkja inn í hvaða húsi í torfbænum gripurinn er staðsettur, en í öllum húsunum eru númeruð upplýsingaspjöld. Hægt er að klára allt spjaldið, eina röð, T eða L, allt eftir því sem hverjum og einum lystir.

  • Létt: Spjaldið er 3x3 og með myndum af 9 gripum ásamt heitum á íslensku og ensku.
  • Miðlungs: Spjaldið er 4x4 með heitum 16 gripa á íslensku og ensku.
  • Erfitt: Spjaldið er 5x5 með heitum 24 gripa á íslensku og ensku.

Spjöldin má nálgast í miðasöluhúsinu Garðsenda.

Þrautabækur

Við bjóðum upp á einfaldar þrautabækur úr barnabókum safnsins Sumardagur í Glaumbæ og Vetrardagur í Glaumbæ, sögulegar skáldsögur sem veita börnum sem fullorðnum innsýn í líf og störf barna á Íslandi á seinni hluta 19. aldar. Bækurnar voru gefnar út á íslensku, ensku, frönsku og þýsku.

Í þrautabókunum er hægt að leysa orðarugl, "finna frasann", leysa krossgátu, finna leið í gegnum völundarhús, teikna og lita! Þrautabækurnar eru til bæði á íslensku og ensku og má nálgast í miðasöluhúsinu Garðsenda og á kaffihúsinu.