Fara í efni

SSNV styrkir Matarkistuna og skjalfestingu torfhefða

Frá úthlutunarhátíðinni. Mynd frá SSNV.
Frá úthlutunarhátíðinni. Mynd frá SSNV.
Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra 2026 hefur nú farið fram en 65 verkefni af 100 sem sóttu um, fengu úthlutað úr sjóðnum, að heildarupphæð 76.340.123 kr.
 
Byggðasafn Skagfirðinga fékk þar af 1.300.000 kr. fyrir verkefnið Matarkistan Skagafjörður en á fundi Atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar í október 2025 var ákveðið að verkefnastjóri matarupplifunar hjá Byggðarsafni Skagafjarðar yrði tengiliður verkefnisins:
 
"Verkefnið styrkir staðbundna matvælaframleiðslu í Skagafirði með því að hvetja og styðja framleiðendur við vöruþróun og nýsköpun. Matarkistan tengir saman framleiðendur og neytendur, stuðlar að auknum sýnileika á markaði og eykur sjálfbærni í matvælaframleiðslu. Með þátttöku á viðburðum á borð við Jólamarkað í Hörpu og Landbúnaðarsýninguna veitir Matarkistan framleiðendum vettvang til að kynna staðbundnar vörur á landsvísu. Verkefnið styður smáframleiðendur við að koma vörum á markað."
 
Þá fékk Fornverk ehf. 1.208.800 kr. vegna verkefnisins Varðveisla og skjalfesting torfhefða í Skagafirði en Byggðasafn Skagfirðinga er samstarfsaðili Fornverks í því verkefni:
 
"Verkefnið miðar að því að varðveita og skjalfesta þá verkþekkingu sem tengist torfskurði í Skagafirði. Lögð er áhersla á að greina hvaða gróðurtegundir og jarðvegsskilyrði gefa til kynna torf af bestu gæðum til húsagerðar. Safnað verður gögnum um jarðveg, gróður, sýrustig (pHgildi), raka og hitastig, með það að markmiði að þróa aðferð til að meta torf út frá ytri einkennum. Niðurstöður verða teknar saman í handbók og kynntar á sýningu, í rafrænu formi og í gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla."
 
Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn og hlökkum til að byggja Matarkistuna áfram upp og efla enn frekar matarmenningu Skagafjarðar og vinna með Fornverki ehf að því þarfa og spennandi verkefni að varðveita og skjalfesta torfhefðir í Skagafirði!
 
Lesa má um úthlutanir á heimasíðu SSNV hér.