Fara í efni

Uppgreftri lokið á Höfnum í ár

Í síðustu viku lauk uppgreftri á Höfnum á Skaga þetta árið, veðurguðirnir minntu aðeins á sig síðasta daginn, þegar gengið var frá svæðinu, en annars hefur veðrið verið með besta móti. Margt spennandi hefur komið í ljós í ár; nýjar byggingar, gripir og mikið af beinum að venju. Það var auðvitað þónokkuð um hvalbein eins og vill vera á þessum stað, gjarnan eitthvað unnin. Þá er forvitnilegt að það virðast vera fleiri fuglabein í eldri fösunum en þeim yngri þar sem þau komu varla fyrir. Ýmis sýni hafa verið tekin m.a. af kolum til kolefnisgreiningar og efniviði úr gólfum og eldstæðum, sem síðan verður fleytt og innihald þeirra rannsakað.

Við höfum notið góðs af góðum samstarfsfélögum og er þátttaka þeirra í verkefninu afar þýðingarmikil. Mikilvægur hluti af verkefninu eru rannsóknir UMASS Boston og Háskólans á Hólum, með Dr. John Steinberg og Dr. Guðnýju Zoëga í broddi fylkingar. Þau hafa tekið könnunarskurði og borkjarna vítt og breitt í nágrenni Hafnabúða, sér í lagi á bæjarstæðum í nágrenninu, og leitast með því við að skoða byggðarþróun á svæðinu, sem varpað getur ljósi á sambandi verbúðanna við býlin í kring. Trace Podder, meistaranemi frá UMASS, hefur einnig tekið sýni úr mannvistarlögum á Hafnabúðum vegna meistaraverkefnis síns og í þeim hefur m.a. komið í ljós að þar hefur farið fram svartasaltsgerð. Auk rannsókna UMASS og Hólaskóla hefur Western Carolina University, með Dr. Vicky Szabo í fararbroddi, séð um greiningar á hvalbeinum, sem er einstaklega áhugavert þar sem mikið magn hvalbeina einkennir þennan stað. Dawn Elise Mooney, frá Háskólanum í Stavanger, veitir okkur einnig liðsinni í að greina nýtingu strand- og sjávarauðlinda á svæðinu sem hluta af verkefninu Marine resource gathering and infrastructure in the Norse North Atlantic (MARGAIN).

Með hverju árinu fjölgar þannig púslunum sem við höfum til að fá mynd af því hvernig líf fólks í Hafnabúðum var og skilja betur þennan mikilvæga þátt sjávarnytja í Íslandssögunni. Við erum ótrúlega þakklát fyrir okkar flotta rannsóknarteymi og frábæru samstarfsaðila og hlökkum til að komast til botns í byggingunum á uppgraftarsvæðinu að ári.