Sigríður Sigurðardóttir, fyrrverandi safnstjóri Byggðasafn Skagfirðinga, var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum á nýársdag fyrir framlag sitt til varðveislu torfbæja og annarra menningarminja.
Sigríður gegndi starfi safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga frá 1. ágúst 1987 til 29. júní 2018, eða í tæp 32 ár. Á starfstíma Sigríðar varð gjörbreyting á starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga þar sem safninu var mótuð skýr fagleg stefna um söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun menningararfs Skagfirðinga. Í lok starfstíma Sigríðar voru torfbærinn og sýningarnar í Glaumbæ orðin helsta aðdráttarafl Skagafjarðar fyrir ferðamenn.
Undir stjórn Sigríðar efldist rannsóknarstarf safnsins til muna, fornleifadeild var stofnuð árið 2003 og safnið festi sig í sessi sem miðstöð fræða og rannsókna. Þá var Sigríður ein af þeim sem kom Fornverkaskólanum á fót árið 2006 og tryggði þar með varðveislu á fornri handverksþekkingu eins og torfhleðslu og grindarsmíði. Þetta öfluga starf leiddi m.a. til þess að Byggðasafn Skagfirðinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin árið 2016. Þá hefur Sigríður haldið áfram að stunda rannsóknir og sinna fræðslu og miðlun eftir störf sín hjá safninu m.a. sem lektor við Háskólann á Hólum.
Eftir Sigríði liggur mikið safn greina, rita og skýrslna, m.a. um reiðmennsku og reiðver, gripi og griparannsóknir, torfhúsaarfinn, kirkjusögu og skráningu fornleifa. Henni var umhugað um að rannsóknir og fræðslurit Byggðasafnsins væru aðgengileg almenningi og eru flest þeirra á heimasíðu safnsins og þýdd yfir á eitt eða fleiri erlend tungumál.
Framlag Sigríðar til íslensks safnastarfs, rannsókna á íslenskum menningararfi, varðveislu og kynningar á menningu og menningararfi Skagafjarðar verður seint metið til fulls.
Þá eru áhrif Sigríðar á þann fjölda fólks sem starfað hefur hjá safninu ómetanleg. Mörg sem störfuðu undir hennar leiðsögn hafa ratað m.a. á brautir fornleifa-, þjóð- og sagnfræði og starfa við minjavernd, varðveislu og rannsóknir víða um land. Leiðsögn hennar, fagmennska og elja hafa þannig haft djúp og varanleg áhrif á fjölda fólks.
Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga óskar Sigríði innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu og þakkar henni um leið fyrir ómetanlegt framlag sitt til safnsins og þeirrar vegferðar sem hefur gert safnið að þeirri öflugu stofnun sem það er í dag.