Fara í efni

Áramótakveðja og annáll ársins 2025

Við óskum landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þökkum gestum, samstarfsfólki og velunnurum fyrir árið sem er að líða. Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga hefur haft í nógu að snúast, en safnið tók á móti 65.017 manns á árinu, þar af 61.126 í Glaumbæ og 3.891 í Víðimýrarkirkju.

Ljóst er að um fleiri gesti er að ræða en í fyrra þegar safnið tók á móti rúmlega 61 þúsund gestum. Á árinu heimsóttu 734 færri Víðimýrarkirkju, en aftur á móti var fjölgun gesta í Glaumbæ um 4.499 – svipaður fjöldi og á metárinu 2023 þegar 62.733 gestir heimsóttu bæinn.

Metárið 2023 sprengdi alla skala og reyndist í raun of mikill fjöldi með tilliti til innviða, svo sem stærðar bílastæðisins og annarra aðstæðna. Aðgangsstýring hefur þó batnað eftir að safnsvæðinu var lokað af. Við horfum bjartsýnum augum til framtíðar, þar sem Byggðasafnið hefur samið við Teiknistofu Norðurlands um deiliskipulagsgerð safnsvæðisins og verður spennandi að fara í þá vinnu á nýju ári.

Þá eru einnig spennandi tímar framundan við undirbúning flutnings safnsins í nýtt varðveislurými í glæsilegri miðstöð skagfirskrar lista- og safnastarfsemi á Sauðárkróki. Um er að ræða langþráð varðveisluhús, enda hefur varðveislurýmið verið svo stappfullt að safnið hefur ekki getað tekið á móti nýjum gripum undanfarin ár, einkum stærri gripum. Eins og staðan er nú er safnkosturinn í ósamþykktu húsnæði samkvæmt safnalögum og reglugerð um viðurkenningu safna nr. 900/2013, það er að segja húsnæði sem uppfyllir ekki skilyrði viðurkennds safns hvað varðar öryggi safngripa. Flutningur í nýtt varðveisluhúsnæði er því afar mikilvægur áfangi fyrir starfsemi Byggðasafnsins og mun þar skapast frábær aðstaða fyrir söfnin á svæðinu til að efla samstarf og miðla skagfirskum menningararfi.

Við buðum Völu Stefánsdóttur hjartanlega velkomna til starfa en hún tók til starfa sem nýr verkefnastjóri matarupplifunar safnsins. Vala er kaffibrennslumeistari og eigandi Korg kaffibrennslu. Hún tók við svuntunni í Áshúsi og sér þar um kræsingar á borðum, ásamt ljúffengu kaffi. Hún mun einnig láta að sér kveða í kynningu á Matarkistu Skagafjarðar, en Byggðasafn Skagfirðinga hefur tekið að sér að vera tengiliður verkefnisins. Matarkistan Skagafjörður snýst um samvinnu fjölbreyttra matvælaframleiðenda í Skagafirði að því að efla skagfirska matarmenningu og koma henni á framfæri.

Helstu verkefni safnsins á árinu 2025 voru meðal annars eftirfarandi:

Starfsfólk safnsins átti í einstaklega góðu samstarfi við menntastofnanir héraðsins á árinu. Nemendur í námskeiðinu Menning og ferðamál hjá Ferðamáladeild Háskólans á Hólum komu í heimsókn og fengu kynningu á starfsemi safnsins. Þá áttu tveir starfsmenn safnsins, Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri og Ásta Hermannsdóttir deildarstjóri fornleifadeildar, einstaklega gott samstarf við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í tengslum við kennaranám sitt og fengu að spreyta sig í kennslu í söguáföngum undir handleiðslu Ágústar Inga Ágústssonar. Nemendur fræddust meðal annars um safnastarf, fornleifafræði, torfarfinn, sögu héraðsins, Íslendingasögurnar og margt fleira.

Starfsfólk safnsins vann jafnframt að einstaklega góðu og skemmtilegu samstarfsverkefni með Varmahlíðarskóla þar sem nemendur í 1.–5. bekk unnu skólaverkefni sem byggði á barnabókinni Vetrardagur í Glaumbæ, sem safnið gaf út árið 2023. Heimsóknir starfsfólks safnsins og nemenda og kennara fóru fram á báða bóga og urðu úr einstaklega gefandi og ánægjulegar samverustundir. Nánar verður greint frá verkefninu á nýju ári.

Barnabækurnar Sumardagur í Glaumbæ og Vetrardagur í Glaumbæ voru gefnar út á pólsku á árinu. Í bókunum fylgjum við tveimur börnum og heimilishundinum einn dag í lífi þeirra. Þetta eru sögulegar skáldsögur sem veita bæði börnum og fullorðnum innsýn í líf og störf barna á Íslandi á seinni hluta 19. aldar. Bækurnar eru nú fáanlegar á íslensku, ensku, frönsku, þýsku og pólsku. Safnið stóð fyrir viðburði í tilefni af útgáfunni þar sem Ewelina Kacprzycka, þýðandi bókanna, las upp úr þeim í baðstofunni í Glaumbæ 13. desember.

Barnabækurnar hafa fengið feyknagóðar viðtökur. Upplag Sumardags í Glaumbæ á íslensku (500 stk.) og þýsku (300 stk.) seldust upp í upphafi árs 2025 og fóru í endurprentun. Í lok árs 2025 seldist Vetrardagur í Glaumbæ á íslensku jafnframt upp (500 stk.), og ánægjulegt er hversu mörg börn hafa notið þess að lesa um Sigga, Jóhönnu og hundinn Ysju og ævintýri þeirra í Glaumbæ.

Að venju var í nógu að snúast hjá fornleifadeildinni við skráningar- og rannsóknarverkefni. Verkefnið Verbúðalíf á Höfnum hlaut áframhaldandi stuðning úr Fornminjasjóði og fór uppgröftur þar fram fjórða sumarið í röð. Í ár komu í ljós nýjar byggingar, gripir og mikið af beinum, þar á meðal unnin hvalbein. Athyglisvert er að fuglabein virðast algengari í eldri fösum en þeim yngri. Tekin hafa verið sýni til kolefnisgreiningar og rannsókna á efniviði úr gólfum og eldstæðum. Verkefnið nýtur dýrmæts samstarfs við UMASS Boston og Háskólann á Hólum undir stjórn Dr. John Steinberg og Dr. Guðnýju Zoëga, sem hafa rannsakað byggðarþróun í nágrenni Hafnabúða með könnunarskurðum og borkjörnum. Með hverju árinu fjölgar púslunum sem varpa ljósi á líf fólks í Hafnabúðum og mikilvægi verbúða í íslenskri sjávarútvegssögu. Við erum afar þakklát fyrir öflugt rannsóknarteymi og samstarfsaðila og hlökkum til áframhaldandi rannsókna á svæðinu á komandi ári.

Að vanda tók fornleifadeild safnsins að sér fjölda skráningaverkefna. Umfangsmesta verkefnið var fornleifaskráning vegna undirbúnings Fljótaganga fyrir Vegagerðina. Gríðarlegt magn minja kom þar í ljós; alls voru 435 minjar skráðar í fornleifaskrá, auk 465 kolagrafa og kolagrafasvæða. Skýrslan er væntanleg í næsta mánuði og verður meðal annars birt á heimasíðu safnsins. Um stórt og mikilvægt verkefni var að ræða og gleðilegt að fá tækifæri til að greiða leið fyrir þessari mikilvægu samgöngubót.

Fornverkaskólinn stóð fyrir tveimur vel heppnuðum námskeiðum: annars vegar námskeiði í grindarsmíði á Tyrfingsstöðum á Kjálka dagana 27.–29. ágúst og hins vegar námskeiði í torfhleðslu á Minni-Ökrum í Blönduhlíð dagana 30. ágúst til 1. september. Kennarar námskeiðanna voru Helgi Sigurðsson hleðslumeistari og Snædís Traustadóttir húsasmíðameistari.

Byggðasafn Skagfirðinga stóð fyrir þriðja málþinginu um torfarfinn 29. ágúst í Kakalaskála í Skagafirði. Þar var fjallað um torfarfinn frá ýmsum hliðum. Viðburðurinn var hluti af Menningarminjadögum Evrópu og haldinn í tilefni af 50 ára afmæli Evrópska húsverndarársins.

Dagana 8.–12. september stóð Fornverkaskólinn einnig fyrir tjörgunarnámskeiði á Hólum í Hjaltadal í Skagafirði í samstarfi við Vígslubiskupsembættið á Hólum, Norsk håndverksinstitutt (The Norwegian Crafts Institute), Fortidsminneforeningen (The National Trust of Norway) og Martinussen Tradition and Competence AS. Hópur handverksmanna frá Noregi kom til landsins til að leiðbeina og taka þátt í námskeiðinu, en viðfangsefni þess var að tjarga Auðunarstofu á Hólum. Kennari námskeiðsins var Tor Meusburger, sem hefur tjargað fjölmargar stafakirkjur í Noregi. Í tengslum við námskeiðið var haldið opið málþing 10. september þar sem rætt var um handverk, tjörgun, óáþreifanlegan menningararf og fleira.

Ánægjulegt er að segja frá því að Fornverkaskólinn var notaður sem dæmi um fyrirmyndarverkefni í samstarfsverkefninu NICHE-2 um óáþreifanlegan menningararf. Verkefninu er stýrt af Þekkingarneti Þingeyinga og samstarfsaðilar eru frá sex löndum: Króatíu, Frakklandi, Íslandi, Ítalíu, Belgíu og Spáni. Markmið verkefnisins er að efla svið óáþreifanlegs menningararfs (ICH) með því að samþætta umhverfis- og sjálfbærnifærni í þjálfun og starfsháttum. Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindu og afurðum verkefnisins.

Verkefnið Viking Networks & Young Adults hélt áfram á árinu. Um er að ræða samstarfsverkefni safnsins, Lofotr Viking Museum í Noregi, Kyle & Lochalsh Community Trust í Skotlandi og Kujataa UNESCO World Heritage – Norse and Inuit Farming at the Edge of the Ice Cap í Grænlandi. Verkefnið er styrkt af Norræna Atlantssamstarfinu (NORA) og byggir á sameiginlegri arfleifð landanna þriggja, sögu svæðanna og minjum frá 11. öld. Sameiginlegt markmið safnanna er að finna lausnir við áskorunum sjálfbærrar ferðamennsku og eflingar afskekktra byggða. Verkefnið hlaut áframhaldandi stuðning frá NORA þriðja og jafnframt síðasta ár verkefnisins.

Byggðasafninu hlutu í ár verðlaunin Awards of Excellence 2025 í annað sinn frá ferðaskrifstofunni CIE Tours. Verðlaunin voru veitt þar sem heimsókn á safnið hlaut yfir 90 í einkunn frá gestum CIE Tours. Alls komu hátt í 400 gestir frá CIE Tours árið 2025, og heimsóttu þeir bæði sýningar safnsins og nutu veitinga í Áshúsi. Við erum afar glöð og þakklát fyrir þennan viðurkenningarvott og stolt af starfsfólki safnsins sem leggur sitt af mörkum til þess að upplifun gesta sé sem best.

Auk fjölda annarra verkefna stóð safnið fyrir ellefu eigin viðburðum og tók jafnframt þátt í fjölmörgum málþingum, ráðstefnum og öðrum viðburðum. Viðburðir safnsins fengu góðar undirtektir og voru að jafnaði vel sóttir.

Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga hlakkar til viðburðaríks árs 2026 og færir samstarfsaðilum, velunnurum og gestum safnsins hjartans þakkir fyrir samfylgdina á liðnu ári.