02.09.2019
Hátt í 150 manns lögðu leið sína fram á Kjálka í Skagafirði laugardaginn 31. ágúst, þegar gömlu húsin á Tyrfingsstöðum voru opnuð gestum og gangandi. Viðburðurinn Opið hús á Tyrfingsstöðum var haldinn í tengslum við Menningarminjadaga Evrópu 2019. Gestum var boðið að ganga um húsin og fræðast um uppbygginguna sem hefur átt sér stað á síðustu árum. Boðið var upp á kaffi og meðlæti, en Kristín Jóhannsdóttir, bóndi á Tyrfingsstöðum, sá um að steikja lummur. Var það í fyrsta skipti í hartnær 50 ár sem kveikt var upp í eldavél í gamla bænum. Sigríður Sigurðardóttir sagði frá tilurð Fornverkaskólans og Tyrfingsstaðaverkefninu.