Fara í efni

Nýjar vefsýningar á Sarpur.is

Úskorinn stafhúnn og askur úr vefsýningu á Sarpi.is

Á sýningum og í geymslum Byggðasafns Skagfirðinga kennir ýmissa grasa, þar er m.a. að finna marga listilega útskorna gripi, innanstokksmuni sem og nytjahluti. Byggðasafn Skagfirðinga hefur nú birt tvær vefsýningar á menningarsögulega gagnasafninu Sarpi, annars vegar um útskurð og hins vegar um kistur. 

Í sýningunni Útskurður  má finna myndir og upplýsingar um sérvalda gripi sem vert er að virða fyrir sér. Útskurður var ein af þeim aðferðum sem Íslendingar notuðu öðrum fremur til að fegra umhverfi sitt í árhundruð. Viður var mest notaður til útskurðar, þá sér í lagi fura og greni sem ýmist rak á fjörur landsins eða var flutt inn, en einnig var skorið út í bein og horn. 

Skoða sýninguna Útskurð á heimasíðu Sarps.

Kistur úr vefsýningu á Sarpi.is

Hjá Byggðasafni Skagfirðinga er að finna kistur, koffort og kistla af ýmsum stærðum og gerðum; einfaldar og fagurlega skreyttar, stórar og smáar. í sýningunni Komdu og skoðaðu´í kistuna mína er að finna myndir og upplýsingar um kistur sem varðveittar eru á safninu.

Kistan hefur löngum verið talin eitt mikilvægasta húsgagn fyrri tíma. Út frá fjölda þeirra og gerð hefur mátt mæla velmegun manna og ríkidæmi. Þær voru yfirleitt geir- eða trénegldar með flötu eða kúptu loki, einfaldar að gerð og lögun eða listilega skreyttar, annað hvort með útskurði eða málun.

Skoða sýninguna Komdu og skoðaðu´í kistuna mína á heimasíðu Sarps.

/IKM