Fara í efni

Illeppar sem hlýjuðu fótum fyrr á öldum - vefsýning safna á Norðurlandi vestra

Illeppar frá Byggðasafni Skagfirðinga 

Byggðasafn Skagfirðinga, Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi hafa undanfarin tvö ár verið að efla faglegt samstarf safnanna. Nú standa söfnin fyrir sameiginlegri vefsýningu á menningarsögulega gagnasafninu Sarpur.is. Sýningin ber heitið Illeppar sem hlýjuðu fótum fyrr á öldum og inniheldur nokkur sýnishorn af fallegum og skrautlegum illeppum sem varðveittir eru hjá söfnunum þremur. 

Viðræður um hvernig efla mætti faglegt samstarf safnanna hófust árið 2018. Út frá þeim þreifingum kviknuðu hugmyndir um samnýtingu á starfsfólki og faglegan stuðning í tímabundin verkefni, s.s. skráningarverkefni, sýningagerð, greiningarvinnu o.s.frv. Slíkt samstarf nýtist sérlega vel ef eitt safn býr yfir meiri sérfræðikunnáttu á ákveðnu sviði, t.d. við greiningu á safngripum eða skráningu á Sarp. Faglegt samstarf felst einnig í sameiginlegri símenntun starfsfólks, s.s. með námskeiðs- og fyrirlestrahaldi. Slík námskeið nýtast jafnframt vel fyrir aðila sem starfa á setrum og við sýningar. Söfnin stóðu t.a.m. fyrir tveggja daga forvörslunámskeiði á Reykjum í febrúar 2019 og var það sótt af starfsfólki Byggðasafna, skjalasafna og setra á svæðinu. Söfnin halda ótrauð áfram vinnu við þróun samstarfsins og kynna nú með stolti fyrstu sameiginlegu vefsýninguna á Sarpur.is, að þessu sinni um illeppa.

Lepparnir sem hlýjuðu fótum barna og fullorðinna fyrr á öldum eru rammíslenskur menningararfur. Fallegir leppar voru oft nýttir til gjafa og dæmi eru um að sum hjónabönd hafi orðið til fyrir tilstilli fagurlega prjónaðra leppa. Í vefsýningu safnanna er aðeins stiklað á stóru um þennan einstaka menningararf sem núlifandi kynslóð þekkir lítið til. Sýninguna má nálgast á slóðinni: https://sarpur.is/Syning.aspx?ID=811.