Þann 10. ágúst síðastliðinn var áhugasömum boðið að taka þátt í Opnum degi á Syðstu-Grund, þar sem átti að ljúka verki sem hófst sumarið 2023. Í fyrra sumar voru veggir gömlu útihúsanna (torffjós sem notað var undir hross í seinni tíð) hlaðnir upp, og í ár þurfti að lagfæra grind og þekja yfir. Helgi Sigurðsson og starfsmenn Fornverks ehf. sáu um að laga og styrkja grindina og áhugasömum bauðst svo að koma og taka þátt í að tyrfa yfir, skoða, spjalla, fá sér kaffi og fræðast um torfhleðslu á opnum degi milli kl. 9-17.
Dagurinn fór fram úr björtustu vonum en fjölmörg lögðu leið sína að Syðst-Grund til að taka þátt, skoða og spjalla. Nokkuð var um gesti úr Skagafirði og nágrannabyggðalögum, en einnig komu gestir og þátttakendur um langan veg; frá Vopnafirði og Reykjavík, að ógleymdum alþjóðlegum gestum. Verkið gekk vonum framar og þakið var tilbúið tveimur tímum á undan áætlun.
Við þökkum öllum sem komu og tóku þátt kærlega fyrir aðstoðina og samveruna!
Einnig þökkum við Helga Sigurðssyni og starfsmönnum Fornverks fyrir þeirra vinnuframlag og viðveru og eigendum Syðstu-Grundar fyrir höfðinglegar móttökur, samveru og þátttöku.
Þá þökkum við styrktaraðilum, húsafriðunarsjóði og Menningarsjóði KS, fyrir að gera okkur kleift að standa fyrir viðburðinum.
Fleiri myndir frá viðburðinum má sjá hér.