Fara í efni

Fjallkonuhátíð í Skagafirði

Síðustu helgi tók Byggðasafn Skagfirðinga þátt í Fjallkonuhátíð í Skagafirði, en við erum þakklát fyrir að hafa fengið að koma að þessum stórkostlega viðburði með Þjóðbúningafélagi Íslands, Pilsaþyt og Annríki – Þjóðbúningar og skart.

Hátíðin var tileinkuð þremur einstaklingum sem settu mark sitt á þróun íslenskra kvenbúninga á 19. öld. Sigurði „málara“ Guðmundssyni, frá Hellulandi í Hegranesi sem skapaði hugmyndina um skautbúninginn. Samstarfskonu Sigurðar, Sigurlaugu Gunnarsdóttur frá Ási í Hegranesi, sem saumaði skautbúning eftir fyrirmynd hans, þann elsta sem varðveist hefur, og Guðrúnu Skúladóttir frá Ökrum sem saumaði einstakan faldbúning sem seldur var til Englands 1809.

Hátíðin var sett með ávarpi forystukvenna í Pilsaþyt og Þjóðbúningafélags Íslands, Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri Byggðasafnsins hélt erindi um baðstofulíf og Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri og sagnfræðingur fjallaði um þjóðbúningana. Þá var þjóðbúningamessa á Hólum í Hjaltadal og farin kynnisferð um sögustaði í Skagafirði, fararstjórar voru Kristín Sigurrós Einarsdóttir og Níels Ómarsson starfsmaður safnsins. Farið var á Akra þar sem Guðrún Skúladóttir bjó, Hegranes þar sem Sigurður málari og Sigurlaug Gunnarsdóttir bjuggu og þá var Glaumbær sóttur heim. Einnig var þjóðbúningasýning opin í Miðgarði alla helgina.

Viðburðurinn var styrktur af sveitarfélaginu Skagafirði og Kaupfélagi Skagfirðinga.