Fara í efni

Eyþór og Lindin

Við tókum þátt í einstaklega skemmtilegu samstarfsverkefni í tilefni af 120 ára afmæli Eyþórs Stefánssonar í fyrra sem frestaðist vegna heimsfaraldurs og fór nú loksins fram í Frímúrarahúsinu þann 13. nóvember sl. en hann var einmitt borinn til grafar þann dag árið 1999. Um var að ræða söngdagskrá með ævisöguívafi byggðu á höfundarverki Eyþórs Stefánssonar og ævisögu hans eftir Sölva Sveinsson. Til sýnis voru munir Eyþórs sem eru í vörslu Byggðasafnsins og þjónuðu einnig tilgangi sviðsmyndar.
 
Það voru þau Gissur Páll Gissurarson tenór, Helga Rós Indriðadóttir sópran, Jóel Agnarsson tenór, Ragnheiður Petra Óladóttir sópran, Sindri Rögnvaldsson bassi og Skagfirski kammerkórinn sem sáu um söng. Guðrún Dalía Salómonsdóttir sá um píanóleik. Sögumaður var Eyþór Árnason en hann sá einnig um samantekt og umsjón ásamt Helgu Rós Indriðadóttur.
 
Það má með sanni segja að viðburðurinn hafi heppnast einstaklega vel, það var gríðarlega góð mæting, setið í öllum sætum í salnum, og mjög góður rómur var gerður að upplifuninni.