Fara í efni

Blóðug lækning?

Blóðtökubíldur (BSk-378) frá Sigfúsi Péturssyni (1830-1922) frá Eyhildarholti

Hefur þú velt því fyrir þér hvernig fólk brást við þegar veikindi og slys bar að garði fyrr á öldum? Læknisfræði hefur fleygt fram síðustu áratugi og nú finnst okkur sjálfsagt að hafa aðgang að lækni í nágrenninu þegar eitthvað bjátar á, en fram á síðari hluta 19 aldar voru sjö læknisembætti á Íslandi, auk landlæknis. Fyrir þann tíma þurftu flestir að reiða sig á eigið hugvit, alþýðuvisku og húsráð, sjálfmenntaða menn og „skottulækna“ til að bjarga lífi og limum. Jónas Jónasson frá Hrafnagili fjallar um heilsufar og lækningar í bókinni Íslenskir þjóðhættir (1934) og er þar að finna margt skondið og skrítið.

Annað af tvennu þótti gott til að bregðast við snöggum veikindum; að taka blóð eða að láta sjúklinginn svitna duglega. Blóðtökumenn var víða að finna, en orðstír þeirra virðist hafa verið afar misjafn. Töldu sumir að blóðtaka væri allra meina bót, en hvar blóðið var tekið fór eftir þeim sjúkdómi sem við átti hverju sinni: „við augnveiki var tekið blóð úr augnkrókunum, á enninu við höfuðverk, neftotunni við höfuðþyngslum, innan á skóleistinum við kýlum og bólgu í andliti, hjá naflanum til þess að koma lagi á innyflin o.s.frv“ (bls. 313).

Alls voru blóðtökustaðir 53. Við sumum sjúkdómum þurfti að taka blóð á hverju tungli, en jafnframt á réttum dögum; eldra fólki á minnkandi tungli og ungu fólki með vaxandi tungli. Ekki mátti taka blóð við höfuðveiki er tungl gekk í hrútsmerki eða við fótaveiki er það gekk í fiskamerki. „Ef blóðið gaus mjög ákaft úr beninni, trúði fólk því, að feykilegur vindur væri í blóðinu, og væri lífsnauðsynlegt heilsunnar vegna að hleypa honum út.

Stundum villtust þessir blóðtökumenn á slagæðar og urðu þannig mönnum að aldurtila“ (bls. 315). Ekki batnaði ástandið þegar tveir eða fleiri blóðtökumenn hittust við sama sjúkrabeðið, en þá þótti allt vitlaust hjá hinum og þurfti að láta blæða á öðrum stöðum og meira. „Urðu margir að aumingjum fyrir þessar aðgerðir þeirra“ (bls. 314). Við aðgerðir sem þessar voru stundum notaðir blóðbíldar eða blóðtökubíldar, bæði á menn og skepnur. Á Byggðasafni Skagfirðinga, í Glaumbæ, má finna slík verkfæri, en mikið getum við verið fegin að þau hafi lagst úr notkun.

Heimildir:
Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934) (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík.
Embætti Landlæknis. Sagan, sótt af https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/saga/

/IKM