Fara í efni

Skýrsla um 3. áfanga strandminjaskráninga er komin á Gagnabankann

Árin 2012, 2013 og 2014 fékk Byggðasafn Skagfirðinga styrk úr Fornleifasjóði, nú Fornminjasjóði, til þess að skrá strandminjar við austanverðan Skagafjörð. Lögð var áhersla á að skrá minjar sem eru í hættu vegna landbrots af völdum sjávar. Strandlengjan frá Lóni í suðri að merkjum Hrauna í norðri, að landamerkjum Mánár, hefur verið skráð.

Í rannsóknarskýrslu safnsins nr. 153, Strandminjar við austanverðan Skagafjörð, má lesa um síðasta áfanga skráninganna og í lok skýrslunnar er gerð grein fyrir niðurstöðum frá því að Bryndís Zoëga, landfræðingur hóf skráningarnar sumarið 2012. Verkefnið var að hluta til unnið í samstarfi við ritara Byggðasögu Skagafjarðar en þeir lögðu fram heimildir og önnur gögn sem notuð voru við skráningu í Haganesvík. Á árinu 2014 var skráð strandlína fjögurra jarða: Ysta-Mós, Efra- og Neðra-Haganess í Haganeshreppi og Hrauna í Holtshreppi.