Fara í efni

Ábúendur í Glaumbæ

Í Manntalinu 1946 var þetta fólk búsett í Glaumbæ:
Björn Jónsson, bóndi og kona hans Helga Ingibjörg Guðmundsdóttir og börn þeirra tvö: Pála 5 ára og Guðmundur 2 ára. Þá bjó einnig í Glaumbæ Guðrún Sveinsdóttir, titluð húskona, fædd 1909 og þrjú börn hennar: Fjóla Heiðdal Hafsteinsdóttir fædd 1933, Ingimar Vorm Kristjánsson fæddur 1939, Lilja Þuríður Kristjánsdóttir fædd 1943. Guðrún var með eigið heimili og bjó í norðurhúsi baðstofunnar.

Árið 1931 var heimilisfólk í bænum í Glaumbæ árið 1931 samkvæmt Manntali:

Sr. Hallgrímur Thorlacius ásamt barnabörnum. Mynd/HSk 
Þar var séra Hallgrímur Thorlacius prestur 67 ára og Jón Jónsson bóndi 45 ára og kona hans Soffía Jósafatsdóttir húsmóðir 44 ára. Þau áttu þrjú börn: Sæmundur Jónsson 16 ára, Hansína Jónsdóttir 8 ára og Valtýr Jónsson, barn þeirra 7 ára. Jón Helgason vinnumaður 56 ára, Jónína Jónsdóttir vinnukona 62 ára, Sigurlaug Vigfúsdóttir húskona 60 ára, Markús Sigurjónsson húsmaður 22 ára (hann bjó seinna á Reykjarhóli) og Líney Sigurjónsdóttir húskona 27 ára.

Glaumbæjarannáll 

Minnisvarði um Snorra Þorfinnsson fyrsta nafngreinda bóndann í Glaumbæ og móður hans landkönnuðinn Guðríði Þorbjarnardóttur í Glaumbæjar kirkjugarði. Um 950 má ætla að Langholt hafi verið fullnumið. Glaumbær var í landnámi Úlfljóts en ekkert er vitað um fyrstu ábúendur þar. Leifar húsbyggingar undir langhúsi því frá 11. öld sem fannst í Glaumbæ árið 2001 bendir til að jörðin hafi þá verið byggð. Um 1015 hafði landkönnuðurinn Þorfinnur karlsefni Þórðarson frá Reynistað keypt Glaumbæjarlönd ef marka má Grænlendingasögu. Hvort hann reisti þar bú ásamt konu sinni Guðríði Þorbjarnardóttur, eftir að þau komu heim frá Grænlandi og dvöl á austurströnd Norður-Ameríku, er alls óvíst. Um það segir í sögunni:

„Nú siglir Karlsefni í haf og kom skipi sínu fyrir norðan land í Skagafjörð og var þar upp sett skip hans um veturinn. En um vorið keypti hann Glaumbæjarland og gerði bú á og bjó þar meðan hann lifði og var hið mesta göfugmenni og er margt manna frá honum komið og Guðríði konu hans og góður ættbogi“ [1] .

1020-1040

 

„er Karlsefni var andaður tók Guðríður við búsvarðveislu og Snorri son hennar er fæddur var á Vínlandi. Er Snorri var kvongaður þá fór Guðríður utan og gekk suður og kom út aftur til bús Snorra sonar síns og hafði hann þá látið gera kirkju í Glaumbæ“[2].
1030-1040 „Síðan varð Guðríður nunna og einsetukona og var þar meðan hún lifði“[3] .

1234

bjó Hallur Þorsteinsson þingmaður Kolbeins unga Arnórssonar af ætt Ásbirninga í Glaumbæ.
1254 fékk Rafn Oddsson riddari og síðar hirðstjóri, Glaumbæ af Halli og bjó þar [4] .
1289 tók Jón korpur, sonur Rafns við búinu. Rafn sonur Jóns tók við af honum og fékk viðurnefni af staðnum.

1342

hélt Glaumbæjar-Rafn 360 manna brúðkaupsveislu fyrir Bótólf Andrésson hirðstjóra og Steinunni dóttur sína.
1343 drukknaði Glaumbæjar-Rafn, sem mestur þótti höfðingi í Skagafirði á sinni tíð, í Þjórsá.
1416 varð Þorleifur Árnason í Glaumbæ sýslumaður Skagfirðinga. Kona hans var Kristín dóttir Björns Jórsalafara.
1440 giftist Árni, sonur Þorleifs og Kristínar, Soffíu dóttir Lofts ríka Guttormssonar og bjuggu þau í Glaumbæ.
1464 tók Þorleifur Árnason, sonur Soffíu og Árna, við Glaumbæ og bjó þar stórbúi í hálfan fimmta tug ára.

1510

 

tók Teitur lögmaður sonur Þorleifs við staðnum. Hann var forríkur að jörðum og kvikfénaði, fyrirferðamikill höfðingi. Ekki var hann jafn gætinn í fjármálum og forfeður hans og tókst Hólabiskupum, fyrst Gottskálki Nikulássyni og síðan Jóni Arasyni, með ærinni óbilgirni og yfirgangi og í krafti laga, að ná af honum nær öllum eignum hans.

1528

 

náði Rafn Brandsson á Hofi á Höfðaströnd, tengdasonur Jóns biskups Arasonar, lögmannsembættinu af Teiti og biskup hrakti hann frá Glaumbæ. Árið 1522 átti Teitur 34 jarðir en þarna, sex árum síðar, steig hann á hest sinn á Glaumbæjarhlaði slippur og snauður og rúinn öllum auði og virðingu. Teitur ánafnaði Guði, Jóhannesi skírara og heilagri Önnu Glaumbæ eftir sinn dag, en bað eftirsáta sínum bölbæna.

1529

sat Rafn Brandsson drykkjuteiti í Glaumbæ og varð ósáttur við svein sinn Filippus og manaði hann til einvígis við sig „úti fyrir karldyrum“ (á bæjarhlaðinu). Rafn hlaut svöðusár í skilmingunum og dró það hann til dauða [5] nokkrum dögum seinna. Þóttu áhrínisorð Teits lögmanns fljótvirk.
1540

minntist Jón biskup Arason gjafar Teits til Guðs, heilagrar Önnu og Jóhannesar skírara og lét 12 presta dóm staðfesta gjöfina. Framkvæmd gjörðarinnar dróst en biskup lagði jörðina undir Hóladómkirkju og hafði þar stólsbú næsta áratug.
1550

þann 5. maí, fáum mánuðum áður en Jón biskup sjálfur gekk fyrir sinn skapadóm, gerði hann Glaumbæ að stað eða kirkjuléni (beneficum) og lagði til hennar 20 mylkar ær og jarðirnar Stóra-Vatnsskarð og Syðri- og Ytri-Ey á Skagaströnd. [6] Glaumbær hefur verið prestssetur óslitið síðan og löngum þótt vænsta brauð í Skagafirði.

1554

 

 

 

tók séra Gottskálk Jónsson (1524-1590) við prestsembætti í Glaumbæ, einn merkasti prestur sem þar hefur setið. Hann var dóttursonur Gottskálks biskups grimma, Nikulássonar á Hólum, af auðugri norskri ætt. Gottskálk var handgenginn Jóni Arasyni og reyndi að fá biskup og syni hans leysta úr haldi, en án árangurs. Gottskálk ritaði svonefndan Gottskálksannál sem var að einhverju leyti undirstaða að ritum Arngríms Jónssonar lærða kennara á Hólum og Skarðsárannál Björns Jónssonar. Þekktust er syrpa hans hin mikla, eitt merkasta 16. aldar handrit sem til er á íslensku og jafnframt eitt af okkar elstu pappírshandritum. Gottskálk kallaði þá bók Sópdyngju eða Dægrastytting. Í henni eru skráð um 160 skjöl, svo sem dómar, máldagar, heitbréf, reikningar, samningar, verðlagsskrár, fróðleikur um galdrastafi, rúnir og kreddur, kvæði, vísur, þulur og gátur og margt fleira frá miðöldum, sem fæst er þekkt úr öðrum heimildum [7] . Skjöl þessi hafa flest verið prentuð í Íslensku fornbréfasafni.

1555

lögðu biskupar til að kúgildi og lausafé kirknanna eftir siðbreytinguna skyldi leggjast til uppeldis (náms) presta og til spítala sem sjúkir skyldu innleggjast á og tilnefndu Glaumbæ slíkan stað fyrir Norðlendingafjórðung.

1594

fékk séra Sæmundur Kársson prófastur Glaumbæ og sat þar til dánardægurs 1638.
1630 fékk séra Hallgrímur Jónsson prófastur og officialis staðinn og sat til dánardægurs 1681.
1634 þann 21. október brann fjóshey og nær allt fjósið í Glaumbæ. Náðust út 5 af 13 kúm lifandi [8] .
1655 var Björn Jónsson Skarðsárannálsritari jarðsunginn fyrir kirkjudyrum [9] .
1681 tók Jón Hallgrímsson sonur séra Hallgríms við staðnum og þjónaði kirkju þar til 1693.

1685

var málaður, sennilega úti í Hollandi, prédikunarstóll sem kom til kirkjunnar stuttu síðar. Hans er getið í vísitasiubók prófasts árið 1786 og þar sagður ,,stór prédikunarstóll og vænn með olíufarva, dató 1685” [10] . Spjöld þessa stóls prýða nú veggi kirkjunnar.
1694 fékk séra Ólafur Pétursson staðinn í eitt ár.
1695 tók séra Egill Sigfússon við og sat til 1724. Egill þessi var áður skólameistari á Hólum og munaði engu að hann missti hempuna fyrir lauslæti og barneignir [11] . Hann gaf til kirkjunnar koparklukku þá með ártalinu 1721 sem enn notuð.

1727

 

 

tók við staðnum Grímólfur Illugason og var til 1783/1784. Grímúlfur var þjóðkunnur maður á sinni tíð. Hann var samtíða Galdra-Lofti í Hóla-skóla og talinn jafn göldróttur og hann. Þjóðsögur herma að hann hefði átt í deilum og galdraglettingum við Þorvarð prest Bárðarson á Kvíabekk og síðar í Felli og að þeir hefðu drepið fénað og fólk hvor fyrir öðrum með göldrum. Séra Sigurður Arnórsson á Mælifelli (d. 1866) eignaðist kistil sem séra Grímólfur hafði átt. Í leynihólfi í honum. reyndist margt furðulegt, m.a. klær af fuglum, keldusvín í hveiti og margt annað undarlegt. Séra Sigurður taldi þetta galdradót Grímólfs prests og brenndi það allt. [12]

1734

gaf séra Grímúlfur kirkjunni koparklukku með ártalinu 1734, sem enn er notuð. Grímúlfur gerði við og lét endurbyggja bæinn að hluta um þetta leyti og er eldhúsið sennilega enn með sama sniði og hann lét útbúa. Einnig tók hann niður nyrsta hluta skálans, þ.e. þann endann sem var norðan bæjardyra og lét byggja upp hús sem kallað var stofa og snéri timburklæddum gafli fram á hlað.

1738

dó Gísli 11 ára sonur Grímólfs prests úr vosbúð. Hann hafði verið sendur niður á Glaumbæjareyjar til að sækja hest ásamt með öðrum. Skall á illviðri og komust þeir heim við illan leik, en Gísli dó stuttu seinna [13].

1780

 

lést annar sonur séra Grímólfs. Sá hét Jón. Hann fór með húskarli fram á Halldórsstaðahaga og kom ekki aftur. Höfðu þeir gengið „í fen ofan allt að mitti, og sýndist húskarlinum svartur hnoðri velta undan sveininum, áður hann gekk í fenið; vildi húskarlinn þá draga hann upp, en sveinninn bað hann vægja sér og slíta sig eigi sundur, því svo blýfastur var hann. Við það hljóp húskarlinn heim og sagði til Grímólfi presti; kom hann skjótt, því ekki var langt að fara, því örskammt er suður á hagann. En er prestur kom til, var sveinninn örendur“ [14] . Þessi slys á sonum séra Grímólfs voru eignuð Þorvarði presti í Felli.

1784

 

tók Eggert Eiríksson, sem hafði verið kapelán (aðstoðarprestur) Grímúlfs við prestskap í Glaumbæ. Hann var sagður „ölkær, hagorður, gleði- og reiðmaður hinn mesti“, en 24 ríkisdali fékk hann í verðlaun frá konungi fyrir að hafa að nýju byggt upp 4 eyðikot eða hjáleigur[15] . Það munu hafa verið Hátún og Húsabakki ásamt Elivogum og Meðalheimi. Eggert þjónaði staðnum til 1813.
1813 varð Magnús Magnússon prestur í Glaumbæ og þjónaði til 1840. Magnús var þekktur járnsmiður.
1833 var byggð timburkirkja í Glaumbæ og klædd torfi. [16] Hún var síðasta torfkirkjan í Glaumbæ.
1835 er til frásögn um að dagana 5. og 6. október var slegin ísastör á Bolatjörn (sem er óþekkt örnefni í dag) og bundið upp á 30 hesta í kulda og frosti [17] .

1837

var dagana 10. 24. júní unnið við að gera við eldhús og göng í Glaumbæjarbænum. Hinn 24. ,,þöktum við eldhúsið og göngin til fulls og erum þá klárir við það nema nokkuð af mold sem eftir er að flytja burt“ og 4. júlí „settum við hlóðirnar í eldhúsið“ [18] segir Nikulás Magnússon í dagbók sinni.
1841 tók Halldór Jónsson (d. 1881) prófastur og þing-maður við prestsembættinu og hélt því til 1849.

1843

lét séra Halldór byggja Norðurstofuna að nýju. Sagnir herma að Jónas skáld Hallgrímsson hafi gist í henni nýbyggðri og hafi fengið fregnir af andláti Bjarna amtmanns Thorarensen, „lagðist hann þá niður í hlaðvarpanum í Glaumbæ og orti hið alkunna kvæði: Skjótt hefur sól brugðið sumri“ [19] .

1850

varð Hannes Jónsson prestur í Glaumbæ. Þegar hann messaði „dró hann tónið á langinn og bar seint fram ræðuna, en hafði góð hljóð, og þó ræður hans hafi ekki verið neitt sérlega góðar, þá fann ég aldrei til leið(a) á blessuðu guðsorðinu í Glaumbæjarkirkju,“ [20] sagði Indriði Einarsson sem gekk til spurninga hjá séra Hannesi.

1868

 

um sumarið kom Pétur Pétursson biskup í vísi-tasíuferð ásamt séra Jóni Hallssyni prófasti, sem þá bjó á Miklabæ. Þegar biskup hafði lokið embættiserindum og þegið góðgjörðir hjá séra Hannesi stigu þeir biskup og prófastur ásamt fylgdarmönnum á bak hestum sínum. Er þeir bjuggust til að ríða úr hlaði vildi Hannes óska biskupi fararheilla og mælti hátt og hátíðlega: „Eg óska að drottinn fari burt með yður af þessu heimili. Varð þá sumum á að kíma, er á hlýddu, en Pétur biskup sneri sér við í hnakknum og mælti: Og verði eftir hjá yður líka“[21] .

1870 hóf séra Hannes byggingu timburkirkju sunnan kirkjugarðsins beint á móti bæjardyrum.

1874

tók Jón Hallsson (d.1894) prófasturinn við Glaumbæ og hélt til 1890. Jónsmessukvöldið þann 24. júní þetta ár drukknaði Jens Oddsson vinnu-maður hans í Glaumbæjarkvísl. Hann hafði ásamt Stefáni syni séra Jóns reynt að fara yfir Kvíslina á lítilli lekri byttu sem notuð var sem ferja. Sökk byttan undir þeim félögunum og Jens drukknaði en Stefán bjargaði sér á sundi [22] .
1876 lauk séra Jón byggingu timburkirkjunnar sem séra Hannes hóf og lengdi baðstofuna í átta stafgólf, eða í það form sem hún nú er.
1878 byggði séra Jón upp Suðurstofuna.
1879 keypti séra Jón altaristöflu eftir Zeuten í kirkjuna. Sú tafla er enn í kirkjunni.

1887

 

 

 

 

 

um sumarmálin gerði hríðargarð og rak inn hafís. Eftir það batnaði tíðin svo bændur slepptu geldfé, enda voru þá hey víða þrotin. Í Glaumbæ var sauðum og öðru geldfé sleppt á Glaumbæjareyjar eins og vant var en ærnar hafðar heima. Þann 17. maí brast á útvestan stórhríð með ógurlegum fannburði og stóð veðrið linnulaust til 20. maí. Fylltist Skagafjörður af hafís og sá varla í dökkan díl er upp birti. Þegar hríðin brast á brugðu heimamenn í Glaumbæ skjótt við og fóru ofan á Glaumbæjareyjar. Höfðu þeir megnið af fénu saman og komu því vestur að Glaumbæjarkvísl. Er þangað kom hafði fannburðurinn fyllt ána á meðan þeir smöluðu fénu svo að kvíslin stóð landafull af krapi og var með öllu ófær yfirferðar. Varð þá brugðið á það ráð að reka féð í rétt sem stóð nyrst á Selrindanum. Góð grind átti að vera í réttarhliðinu en hún hafði verið borin heim að Glaumbæ um haustið og láðst að flytja hana til baka. Réttin var því opin og ekkert til að setja í réttardyrnar. Stóðu Glaumbæjarmenn lengi í dyrunum, en yfirgáfu réttina um síðir er stöðugt herti veðrið og tvísýnt var orðið um líf þeirra ef þeir næðu ekki bæjum. Það varð þeim til bjargar að fjárbrú var á Kvíslinni hjá Geldingaholti. Fundu þeir brúna við illan leik og komust heim í Holt um kvöldið og þaðan heim daginn eftir. Þegar birti upp kom í ljós að mestur hluti fjárins hafði yfirgefið réttina og hrakist undan veðrinu í ár og vötn, tjarnir og kíla. Missti Jón prófastur þarna um 150 fullorðna sauði, fyrir utan annað geldfé. Í þessu veðri varð gríðarlegt skepnutjón víða í Skagafirði. Í skýrslum sem safnað var um afföll búpenings í héraðinu frá veturnóttum 1886 til fardaga 1887 kemur í ljós að skagfirskir bændur misstu 79 kýr, 10.100 kindur og 204 hross [23] og stór hluti þess misfórst í þessu vorveðri.
1890 tók séra Jakob Benediktsson við prestsembættinu og gegndi því til 1894.

1892

í febrúar, var byggð lítil bogabrú fyrir menn og fjárrekstra yfir Glaumbæjarkvísl fyrir neðan bæ skammt norðan við núverandi brú. Einar Guðmundsson á Hraunum smíðaði brúna og kostaði hún um 250 krónur. Brú þessa tók af í ísreki nokkrum árum síðar.
1894 tók Hallgrímur Thorlacius við prestsembætti og þjónaði Glaumbæ til 1935.

1925

stóð Hallgrímur fyrir byggingu nýrrar kirkju vestan kirkjugarðs, norðan við bæinn. Hún er úr steini og stendur enn. Arkitektar kirkjunnar voru Einar Erlendsson og Rögnvaldur Ólafsson en yfirsmiður var Ólafur Kristjánsson frá Ábæ.

1926

þann 13. júní var kirkjan vígð. Í því tilefni gaf séra Hallgrímur henni forkunnarfagurt altarisklæði. Í krikjunni er nú nýtt klæði, en með sama krossi og var á klæði séra Hallgríms.
1927 tóku Jón Jónsson og Soffía Jósafatsdóttir við búskap í Glaumbæ og bjuggu þar til 1938.
1931 í ágúst, brunnu 60 hestar af töðu í Glaumbæ [24] .

1932

 

 

um vorið var tekin gröf Árna Jónssonar bónda að Marbæli. Hafði hann sjálfur mælt fyrir um hvar gröfin skyldi vera, eða þar sem fyrrum gömlu torfkirkjurnar höfðu staðið innan kirkjugarðs. Upp úr gröfinni komu leifar af afarstórri og vandaðri líkkistu sem þó var orðin að hjómi af fúa og elli. Var auðsætt að mikið hafði verið í hana borið. Á henni voru stórir koparskildir til skrauts, en þeir duttu í sundur er við þeim var hreyft. Upp úr gröfinni komu bein af afar stórvöxnum manni. Bar Jón bóndi á Syðri-Húsabakka annan lærlegginn við sig og virtist hann vera allt að 2 þumlungum lengri, en Jón sem sjálfur var 182 cm hár. Úr gröfinni komu einnig silfurhulstur með lykkju með ágröfnum myndum og lítil brýnisflaga, hvort tveggja var sent til Þjóðminjasafns [25] og er varðveitt þar. Þarna hefur vafalaust legið einhver Glaumbæjarhöfðingja frá fyrri öldum sem grafnir voru innan kirkju.
1935 var prestlaust í Glaumbæ og séra Lárus Arnórsson á Miklabæ þjónaði kirkjunni til 1937.

1937

þann 11. júlí, voru jarðsett í Glaumbæjarkirkjugarði bein sem talin voru af Solveigu frá Miklabæ, en menn töldu sig hafa fundið kistu hennar inn-undir kirkjugarðinum á Miklabæ árið 1914. Séra Lárus flutti minningarorð og fór athöfnin fram með miklum helgiblæ [26] .

1938

kom enskur aðalsmaður, Mark Watson í Glaumbæ og varð svo hrifinn af bænum að hann gaf 200 sterlingspund til að gera mætti við hann og varðveita. Þetta ár tók séra Tryggvi H. Kvaran á Mælifelli við prestsþjónustunni í Glaumbæ og gegndi henni til 1940. Þetta ár bjuggu Sæmundur Jónsson og Mínerva Gísladóttir í Glaumbæ og þegar þau fóru tóku Einar Ingólfur Eyjólfsson og Áslaug Benediktsdóttir við og bjuggu í bænum til 1942.
1941 þjónaði Glaumbæ séra Helgi Konráðsson prófastur á Sauðárkróki.

1942

þjónaði séra Lárus Arnórsson á Miklabæ sóknarbörnum Glaumbæjarsóknar framan af ári en s éra Ingólfur Árnason og Rósa Björnsdóttir fluttu seini part árs þangað o0g voru í eitt ár. Þetta ár tóku Ólafur Þorsteinn og Björn Jónssynir við búinu. Ólafur var til 1944 en Björn til 1946. Ráðskona Ólafs var Halldóra Guðrún Ívarsdóttir ekkja, en ráðskona Björns var Helga Guðmundsdóttir.
1943 varð séra Gunnar Gíslason prestur í Glaumbæ og gegndi þar prestskap næstu fjóra áratugina.
1944 var byggður nýr prestsbústaður.

1947

varð gamli bærinn í Glaumbæ þjóðareign. Það ár var Ingvar Sigurðsson til heimilis í gamla bænum í Glaumbæ og titlaður umsjónarmaður staðarins. Hann telst vera síðasti íbúi bæjarins.
1952 þann 15. júní opnaði Byggðasafn Skagfirðinga fyrstu sýningu sína í gamla bænum í Glaumbæ.
1956 voru gerð landaskipti milli Glaumbæjar og hjáleiga staðarins þannig að hver þeirra fékk útmælt land. Beitiland var áfram sameiginlegt á Glaumbæjareyjum.
1968 var byggð ný brú á Kvíslina.
1977 var mælt út land til nýbýlisins Glaumbæjar II.

1982

tók séra Gísli Gunnarsson tók við prestsstörfum af Gunnari föður sínum. Þetta ár var afhjúpaður minnisvarði um Gísla Konráðsson sagnfræðing á hlaðinu í Glaumbæ.
1991 var flutt timburhús frá Ási í Hegranesi að Glaumbæ til að þjóna safni og gestum þess.

1994

var afhjúpaður minnisvarði um Snorra Þorfinnsson fyrsta nafngreinda bóndann í Glaumbæ og móður hans landkönnuðinn Guðríði Þorbjarnardóttur vestan við baðstofuna í Glaumbæ. Varðinn var færður inn í kirkjugarðinn árið 2000.
1997 var byggð upp timburstofa við Glaumbæ. Stofan er eftirgerð fyrsta sýslukontórs og leikhúss Skagfirðinga. Þar eru skrifstofur byggðasafnsins.

2001

fundust leifar langhúss frá 11. öld í túninu neðan við bæjarhólinn. Allt bendir til að bæjarhúsin hafi verið færður upp á hæðina, þar sem bærinn er nú, um og fyrir 1100, eða að tveir bæir hafi verið í byggð samtímis um tíma.
2003 var byggður nýr prestsbústaður í Glaumbæ, skammt norðan kirkju. Arkitekt hússins var Guðrún Jónsdóttir.
2005 Flett var ofan af leifum langhúss frá 11. öld og skoðað umfang þess og viðbygginga sem komu í ljós þegar jörð var opnuð. Veggir komu fram á um 10-20 cm dýpi, undir grassverði.
2019 var ný timburstofa undir móttöku safngesta og safnbúð komið fyrir við inngang safnsvæðisins. Guðmundur Þór Guðmundsson byggingarfræðingur teiknaði húsið og smiður var Eiríkur Péturson húsasmiður. Helgi Sigurðsson hjá Fornverki ehf. tyrfði þakið.
2022 fluttu skrifstofur safnsins í prestsetrið, norðan við kirkjuna, og nýjum sýningum komið fyrir í Gilsstofu. 

Tilvísanir

[1] Íslendingasögur . Orðrétt úr lokakafla Grænlendinga sögu, og samsvarandi 288. dálki Flateyjarbókar.
[2] Íslendingasögur . Orðrétt úr lokakafla Grænlendinga sögu.
[3] Íslendingasögur. Orðrétt úr lokakafla Grænlendinga sögu.
[4] Margeir Jónsson, 1941. Bls. 29-41. Rafn er ýmist skrifaður Rafn eða Hrafn.
[5] Skarðsárannáll: Annálar 1400-1800 I, 90.
[6] DI X, 1914. Bls. 571-572. DI XI,1918. Bls. 775-776, 876. 14 mjólkandi ær = málnytukúgildi.
[7] Byggðasaga II, 2001. Bls. 268.
[8] Skarðsárannáll: Annálar 1400-1800 I, bls. 328.
[9] Vallholtsannáll, 1922-1927. Bls. 341. Kirkjan sú stóð aðeins austar en kirkja nútímans.
[10] Visitasíubók prófasts 1786.
[11] Eyrarannáll, 1933-1938. Bls. 392.
[12] Byggðasaga II, 2001. Bls. 268.
[13] Skarðsárannáll: Annálar 1400-1800 I, 666.
[14] Byggðasaga II, 2001. Bls. 268.
[15] Byggðasaga II, 2001. Bls. 268.
[16] Indriði Einarsson, 1972. Bls. 44 - 47 og Vísitasiubækur prófasta.
[17] Byggðasaga II, 2001. Bls. 268.
[18] Lbs. 1827, 4to: Dagbók Nikulásar Magnússonar í Glaumbæ.
[19] Jón Sigurðsson, 1960. Bls. 12.
[20] Indriði Einarsson, 1972. Bls. 45.
[21] Jón Sigurðsson, 1988. Bls. 132.
[22] Annáll 19. aldar IV, bls. 134.
[23] Jón Sigurðsson: Ættir og óðal, bls. 145-146 og 148 (leiðrétt).
[24] Almanak 1933, Árbók Íslands 1931.
[25] Bréfasafn Þjóðminjasafns: bréf Sigurðar Sigurðssonar sýslumanns 24. september 1933.

[26] Kristmundur Bjarnason, 1998. Bls. 494-495.