Fara í efni

Glaumbær

Bærinn í Glaumbæ er samstæða þrettán húsa. Níu þeirra opnast inn í göng sem svo eru kölluð og eru mjór gangur, sem liggur frá bæjardyrum til baðstofu, sem er aftasta húsið í húsaþyrpingunni. Sex húsanna snúa gafli/burstum að hlaði og hægt að ganga inn um þau þaðan. Þetta eru kölluð framhúsin. Inn í eitt bakhúsanna, sem svo eru kölluð, er hægt aða ganga og eru það bakdyr bæjarins þar sem heimilsifólk gekk vanalega um.

Glaumbær seen from the birds eye.

Fyrsta sýning safnsins var opnuð þar þann 15. júní árið 1952 og fjallaði hún, þá sem nú, um mannlíf í torfbæjum. Glaumbær er í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Starfssvæði Byggðasafns Skagfirðinga, sem er elsta byggðasafn landsins, er allur Skagafjörður og í dag er safnið með bækisstöðvar á nokkrum öðrum stöðum í héraðinu.

Á bæjarhólnum, þar sem bærinn stendur, hafa hús staðið í mörg hundruð ár. Bæjarhúsin hafa breyst að stærð og gerð og færst til á hólnum, eftir efnum og ástæðum húsbænda á hverjum tíma. Árið 2002 fundust leifar húsa frá 11. öld, í túninu austur af bæjarhólnum og virðist sem bæjarhúsin hafi verið flutt um set um eða fyrir 1100, um mannsaldri eftir að sagnir herma að Snorri Þorfinnsson, sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, hafi byggt fyrstu kirkjuna í Glaumbæ. Snorri var fyrsta evrópska barnið, sem sögur fara af, fætt á meginlandi Ameríku.

Glaumbær er torfríkasti bær landsins. Skýringin er sú að grjót í veggjahleðslu er vart að finna í Glaumbæjarlandi, en torfrista er góð. Það má sennilega fullyrða að hvergi í veröldinni sé torf notað í jafnmiklum mæli í jafn stóra byggingu eins og í Glaumbæ. Veggirnir eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng. Rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum. Bæjarhúsin eru misgömul að efni og gerð því menn byggðu húsin eftir því hvort þörf var á stærri eða minni húsum er kom að endurnýjun.

Það sem skipti sköpum um varðveislu Glaumbæjar að breski Íslandsvinurinn Mark Watson (1906-1979) gaf 200 sterlingspund til varðveislu bæjarins árið 1938.

Bærinn var friðlýstur árið 1947. Sama ár fluttu síðustu íbúarnir burtu úr bænum. Árið 1948 er Byggðasafn Skagfirðinga var stofnað og fékk safnið bæinn fyrir starfsemi sína, samkvæmt samningi við Þjóðminjasafn Íslands. Sá samningur var síðast endurnýjaður árið 2002.