Fara í efni

Gilsstofa

Gilsstofan

Gilsstofan er timburhús frá miðri 19. öld. Stofur, sem svo voru kallaðar, af þessu tagi voru byggðar á stöku stað við torfbæina og voru forverar timburhúsanna sem seinna risu. Stofan var færð fjórum sinnum á milli bæja á árunum 1861-1891. Ferðalögin og notkunin gera sögu hennar einstaka, og þótt upprunalegum viðum fækkaði og innra skipulag hafi breyst, því oftar sem hún var reist, hélst hið stílhreina ytra form.

Ólafur Briem timburmeistari á Grund í Eyjafirði byggði stofu þessa á Espihóli árið 1849 fyrir bróður sinn Eggert Briem. Árið 1861 varð Eggert sýslumaður í Skagfirði og tók stofuna með sér þangað. Húsviðir voru dýrir og fyrirhafnarinnar virði að taka hana niður. Voru viðirnir dregnir á ísum til Akureyrar og skipað um borð í hafskip. Illt var í sjóinn er kom að Hofsósi og ófært að landa stórviðum. Voru þeir því fluttir í örugga höfn á opnum bát inn í Kolkuós og landað þar. Þaðan voru þeir dregnir fram að Hjaltastöðum í Blönduhlíð þar sem stofan stóð til 1872. Þá flutti Eggert yfir að Reynistað og aftur var stofan tekin niður og húsviðirnir dregnir á ísum þvert yfir Héraðsvötn, á nýjan grunn þar sem hún stóð til 1884, eins og myndin sýnir. Húsið var notað til íbúðar, sem skrifstofa og til veisluhalda, svo sem í sýslufundarvikunni, eða sæluvikunni eins og hún var kölluð, því margt var til gamans gert og boðið upp á gamanmál og dansleiki á milli funda. Stofan státar af því að vera elsta „leikhús“ landsins. Þar var sett leikrit á fjalirnar árið 1876.

Gilsstofa þegar hún stóð á Reynisstað árið 1884 og síðan á Gili 1890.

Árið 1884 varð Jóhannes Ólafsson á Gili sýslumaður Skagfirðinga. Hann fékk sýslukontórinn fluttan heim til sín og stóð stofan á Gili til 1890 er hún var flutt út á Sauðárkrók og farið var að kalla hana Gilsstofu. Á Króknum stóð hún frá 1890-1985 og var notuð til íbúðar og til að hýsa verslun um skeið. Árið 1985 var hún flutt á bíl að Kringlumýri í Blönduhlíð og þar með lauk hringferð hennar um héraðið. Stofan var endursmíðuð í Glaumbæ 1996-1997.