Sérsýningar á Áshúslofti

Á sýningu í Áshúsinu er fjallað um heimilisbúnað, 300 ára kaffisögu, þjóðbúninga og útskorna nytjahluti.


Megin uppistaða sýningarinnar eru munir úr búi Moniku Helgadóttur, átta barna móður og bónda á Merkigili. Varpað er ljósi á umhverfi og innastokksmuni á bændabýlum um miðja 20. öld um leið og sögð er saga atorkukonu og húsmóður á umbyltingatímum þar sem nýtni og útsjónarsemi skipti megin máli. Í bland eru munir úr eldri búum, nýir og heimasmíðaðir. Þar er einnig hægt að skoða tvo glæsilega skautbúninga. Annar er búningur Sigurlaugar Gunnarsdóttur frá Ási sem hún saumaði 1864-1865 eftir fyrirsögn Sigurðar Guðmundssonar málara. Hinn er einnig saumaður að fyrirmynd Sigurðar málara, en það er búningur Bjargar Eiríksdóttur sem Steinunn Thorsteinsson saumaði fyrir hana á árunum 1907-1908. Á loftinu eru einnig fallega útskornir nytjahlutir, eftir Bólu-Hjálmar og fleiri oddhaga menn.

Á jólaföstu er Áshúsið opið og þá er fjallað um jólahald fyrr á tímum.

 

Glaumbær  |  551 Sauðárkrókur  |  Sími 453 6173  |  byggdasafn@skagafjordur.is