Fara í efni

Strandlengjan öll skráð

Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga hóf skráningu strandminja í Skagafirði árið 2012 og hefur nú skráð alla strandlengjuna, frá Skaga til Fljóta. Starfsmenn safnsins, sem höfðu á árinu 2012, unnið að ýmiskonar fornleifarannsóknum víða um Skagafjörð sáu og fengu ábendingar frá heimildamönnum um fjölda minja sem voru í hættu vegna landbrots af völdum sjávar, eða höfðu orðið fyrir raski af þess völdum. Ákveðið var að sækja um styrk til þess að skrá þessar minjar með það að meginmarkmiði að fá heildaryfirlit yfir strandminjar í Skagafirði. Fornleifasjóður styrkti verkefnið vel öll árin.

Nú hefur lokaáfanga verið náð og fimmta af fimm skýrslum um strandlengjuna, frá Hrauni í Fljótum að Hrauni á Skaga komin út. Skráðar hafa verið um 850 minjar. Í fimmtu og síðustu skýrslunni, sem er nr. 170 í rannsóknaskýrsluröð safnsins, eru birtar niðurstöður lokaáfanga verkefnisins þar sem skráðar voru fornleifar á strandlengjunni frá Fossi að Hrauni á Skaga.

Skýrslur strandminjaskráninganna eru allar birtar á Gagnabanka heimasíðunnar undir: Rannsóknaskýrslur - fornleifaskráningar og -rannsóknir.