Fara í efni

Stolnum gripum skilað aftur til Byggðasafns Skagfirðinga

Í byrjun ágúst barst Byggðasafninu pakki frá Þýskalandi. Sá atburður er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi, nema fyrir þær sakir að innihald pakkans var afar merkilegt. Í pakkanum var rjómakanna úr tini, útskorin smjöraskja og kotrutafla, rennd úr hvalbeini. Pakkanum fylgdi hvorki útskýring né orðsending og starfsfólk safnsins botnaði fyrst um sinn hvorki upp né niður í sendingunni, en svo fór að renna upp fyrir okkur ljós.

Rjómakannan, sem er með blómaflúri um belginn, kom kunnuglega fyrir sjónir og uppgötvaðist að hún tilheyrir setti sem safnið varðveitir í gamla bænum í Glaumbæ. Settið samanstendur af kaffikönnu, sykurkari og þessari rjómakönnu og er sagt úr búi Stefáns amtmanns Þórarinssonar á Möðruvöllum (1754-1823). Síðar var settið í búi Sigurbjargar Jónatansdóttur og Egils Steingrímssonar (1847-1927) sem bjuggu á Merkigili frá 1872-1926, en Sigurbjörg var áður þjónustustúlka á amtmannssetrinu. Munirnir komu til safnsins frá Flatatungu. Athugasemd hefur verið rituð í skrá rjómakönnunar: „Hvarf af safninu 23. júlí 1970“.

Undir botn smjöröskjunar er ritað númerið 212. Eftir stutta leit fannst smjöraskjan í skrám safnsins og passar lýsingin að mestu leyti við öskjuna í pakkanum, að öðru leiti en því að samkvæmt lýsingu voru saumar bilaðir, botninn laus og lokið klofið. Á öskjunni sést að hún hefur verið límd og lagfærð, e.t.v. af þeim aðila sem tók hana ófrjálsri hendi fyrir mörgum árum síðan.

Um kotrutöfluna má það segja að hún er ómerkt, grænlituð og rennd úr hvalbeini. Hún hefur sennilega verið tekin úr einu af kotruborðum safnsins, en því fylgja nokkur fjöldi af samskonar töflum.

Á pakkanum sem gripirnir komu í var skráð nafn og heimilisfang sendandans, sem er búsettur í Þýskalandi. Eftir stutta leit á vefnum gat starfsfólk safnsins grafið upp símanúmer mannsins í Þýskalandi og hringdi í hann til að forvitnast um gripina en ekki síður til að þakka honum fyrir að skila gripunum heim. Skýringin sem við fengum var sú að hann hafði keypt gripina á flóamarkaði í Þýskalandi fyrir mörgum árum síðan og þeim hafi fylgt þær upplýsingar að þeir kæmu frá Glaumbæ. Maðurinn sagðist nú að verða gamall, enginn í kringum hann vildi eiga gripina og því hafi hann ákveðið að senda þá aftur til síns heima.

Sé athugasemdin sem skráð var við rjómakönnuna í gögnum safnsins nákvæm, má ætla að gripunum hafi verið stolið af safninu á sama tíma árið 1970, og að eftir hálfrar aldar fjarveru séu þeir loksins komnir heim.

 Rjómakanna (G-4), smjöraskja (G-212) og kotrutafla komin aftur til Byggðasafns Skagfirðinga, eftir 50 ára fjarveru.