Fara í efni

Flutningum á safngripum í nýtt varðveisluhúsnæði lokið!

Nýtt varðveisluhúsnæði
Nýtt varðveisluhúsnæði

Í síðustu viku lauk mjög stórum áfanga í sögu Byggðasafns Skagfirðinga. Síðustu þrjú árin hefur starfsfólk safnsins unnið að pökkun og flutningi safngripa í nýtt varðveisluhúsnæði og er þeirri vinnu nú lokið. Allt hófst verkefnið með ákvörðun um að flytja sýningar safnsins á Sauðárkróki og geymslur úr Minjahúsinu í annað húsnæði. Með ýmiskonar krókaleiðum var að endingu ákveðið að flytja geymslur safnsins í bráðabirgðahúsnæði að Borgarflöt á Sauðárkróki.

Flutningur á safngripum og breytingar á varðveislurými er, svo ekki sé meira sagt, heilmikil vinna. Við ákváðum í upphafi, vorið 2017, að nýta ferlið til hins ýtrasta. Þar sem handleika þurfti alla gripi notuðum við tækifærið til að ljósmynda, hreinsa og kanna ástand þeirra áður en þeim var pakkað á vörubretti. Hvert og eitt bretti átti sitt númer, sem haldið var til haga með brettamerkingum. Einnig var gerð útlistun á því hvaða gripir voru á hvaða bretti, kölluð brettaskrá. Með brettaskrám er haldið utan um staðsetningu gripa, hvar þeir voru staðsettir (í geymslum eða sýningu), á hvaða bretti eða kassa þá er að finna og loks staðsetningu þeirra í nýrri geymslu.

Pökkun safngripa þarfnast aðgátar og yfirlegu. Til að forðast núning og skemmdir notuðum við parketundirlag til að bólstra og pappaspjöld eftir þörfum, til að verja horn og brúnir. Á milli minni gripa var settur silkipappír. Silkipappír er sýrufrír, sem þýðir að hann hefur ekki efnisleg áhrif á gripina sem hann er í snertingu við. Plast, timbur og ýmsar pappaumbúðir gefa frá sér efni sem ekki eru æskileg til lengri tíma varðveislu vegna þeirra áhrifa sem þau geta haft á gripi. Stærri gripir voru bundnir við brettin til stuðnings. Þegar búið var að tryggja að vel færi um gripina voru brettin plöstuð með strekkiplasti. Pökkun meginþorra safngripanna tók u.þ.b. 10 mánuði. Í kjölfarið tók við alls kyns skráningarvinna (sem enn er í gangi), frágangur brettaskráa og mynda. Brettin voru um 215 talsins ári eftir að pökkun hófst.  

Grænt ljós á flutninga fékkst í nóvember 2019. Vörumiðlun skaffaði flutningabíl og skotbómulyftara (og mannskap) til verksins. Allt þurfti að standa með okkur í flutningum, skipulag og veður, enda ekki hægt að flytja gripi í roki og úrkomu. Flutt voru á annað hundrað bretti áður en óveðrin skullu á hvert á fætur öðru í byrjun desember og settu þau strik í reikninginn.

Þar sem gólfpláss í nýjum geymslum er takmarkað þurfti að skipuleggja vel bæði fjölda bretta sem tekin voru inn og frágang þess á milli. Yfirleitt voru um 20-28 bretti flutt á flutningsdögum.

Við uppröðun í nýjum geymslum þurfti að taka tillit til ýmissa þátta, s.s. fermetrafjölda og skipulags innanhúss, rýmis milli rekka, stærðar; þyngdar og lögunar gripanna sjálfra o.s.frv. Á efri hæðir fóru minni húsgögn og timbur og textíll, gripir sem hægt er lyfta með handafli upp í hillur, þar sem ekki var rými eða möguleiki á að koma lyftara að. Á neðri hæðir fóru stærri húsgögn og þyngri gripir sem erfiðara er að eiga við. Margir þekkja orðatiltækið að sníða sér stakk eftir vexti. Í þessari skipulagsvinnu var nauðsynlegt að sníða vöxtinn eftir stakknum.

Í janúar, þegar hefja átti flutninga að nýju, kom í ljós að ekki hafði verið lokið við eldvarnir í nýju geymslunum eins og reglugerðir gera ráð fyrir. Þá voru góð ráð dýr, enda tugir bretta komnir í brettahillur. Taka þurfti öll bretti á neðri hæðunum niður úr hillum, fjarlægja hillurekka og setja brettin þar sem þau komust, á efri hæðir og þar sem þau urðu ekki fyrir hnjaski. Flutningum var frestað á meðan.

Verkefnum í upphafi árs fjölgaði einnig óvænt vegna flóða í asahláku í Áshússkjallara á safnsvæðinu í Glaumbæ. Í kjallaranum voru gripir í geymslu. Þeim gripum hafði einnig verið pakkað og voru reiðubúnir til flutninga í nýjar geymslur þegar flutningum úr Minjahúsi væri lokið, sem var ekki tilfellið á þessum tíma vegna óvæntra framkvæmda. Safngripir úr kjallaranum voru því fluttir í Minjahúsið, þar voru þeir teknir úr plastinu vegna raka, leyft að þorna og síðan pakkað á bretti og merktir líkt og aðrir gripir. Við þessar aðgerðir bættust við um 30 bretti.

Í lok febrúar var framkvæmdum í geymslunum lokið á nýjan leik. Þá þurfti að byrja á að setja upp brettarekkana og endurraða þeim brettum sem færð höfðu verið til, áður en flutningar gátu hafist á ný. Þegar flutningum safngripa lauk um miðjan mars voru brettin sem fóru úr Minjahúsi um 250 talsins, ásamt skrifstofuhúsgögnum, sýningarskápum og verkfærum fornleifadeildar.

Ýmislegt hefur áunnist á síðustu þremur árum, þó aðstæður hafi oft á tíðum verið snúnar. Fjölmargir gripir hafa verið skráðir á sarpur.is (menningarsögulegt gagnasafn) og það er mikill áfangi að hafa lokið ljósmyndun flestra gripa. Allt eru það skref í að ná utan um þá fjölmörgu gripi sem Byggðasafn Skagfirðinga varðveitir. Það sem tekur við hjá starfsfólki safnsins er áframhaldandi frágangur í nýjum geymslum. Gripir í geymslum hlaupa á þúsundum og því í nógu að snúast. Frágangur gripa snýst ekki aðeins um að koma gripum fyrir, heldur einnig skráningarvinnu og umsýslu mynda og annarra gagna sem gripum fylgja. Starfsfólk safnsins vinnur hörðum höndum að því að ná yfirsýn yfir skráða og óskráða safngripi, þar sem upplýsingar um gripi eru skýrar og aðgengilegar og verður það verkefni næstu missera. 

Það er okkur sönn ánægja að ljúka þessum kafla.

Við viljum þakka öllum þeim sem hafa komið að flutningunum með okkur, m.a. starfsfólki Vörumiðlunar og Áhaldahúss.