Eldri fréttir

17. júlí 2013 - Styrkir til útgáfu og námskeiðahalds
Menningarsjóður Sparisjóðs Skagafjarðar úthlutaði styrkjum til margra spennandi verkefna í gær. Þeirra á meðal voru styrkur að upphæð 100 þús. kr. til Byggðasafnsins til vinnslu og prentunar á smáriti um menningarlandslag og 100 þús. kr. styrkur til Fornverkaskólans til að halda námskeið í vefnaði á kljásteinavefstað.

28. maí 2013 - Styrkir
Fornleifasjóður
, safnasjóður og húsafriðunarsjóður hafa veitt safninu samtals 7,2 millj. kr. í styrki til fjögurra verkefna og reksturs. 
Fornleifasjóður veitti 3 millj. kr. til skagfirsku kirkjurannsóknarinnar, til áframhaldandi rannsókna á Seylu, og 500 þús. kr. til framhaldsskráninga strandminja.

Safnasjóður úthlutaði safninu 1,4 millj. til reksturs og 1,5 millj. kr. til munaskráninga.
Húsafriðunarsjóður styrkir Tyrfingsstaðaverkefnið um 800 þús. kr

19. maí – Áhugasamir Skotar
Undanfarna daga hafa sex fulltrúar á vegum skosku samtakanna Arch Network, sem eru samstarfsaðilar Fornverkaskólans, verið í Skagafirði að kynna sér hvernig við stöndum að varðveislu og kynningu menningararfs og -erfða, einkum á byggingararfi okkar og varðveislu hans. Bryndís Zoëga, verkefnisstjóri Fornverkaskólans, skipulagði ferðir hópsins og leiðsagði honum. Heimsókn hópsins var hluti af Evrópuverkefni sem Fornverkaskólinn er þátttakandi í og nefnist CHIST eða Cultural Heritage Interpretation and Sustainable Tourism. Verkefnið er styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins.  Þetta er í annað sinn sem við fáum heimsókn frá Skotlandi í þessum erindagjörðum.
Helgi Sigurðsson sýnir skosku minjaverndarfólki hvernig á að nota stunguskóflu og undirristuspaða við torfstungu. Norðurveggur fjóssins á Tyrfingsstöðum var notaður sem viðfangsefni á tveggja daga námskeiði sem haldið var fyrir Skotana.
Gestirnir fengu tilsögn í torftöku og torfhleðslu, skoðuðu hvernig staðið hefur verið að viðgerðum á gömlum byggingum og báru saman mismunandi gerðir þeirra. Auk húsa á Tyrfingsstöðum voru kirkjurnar í Gröf, Hólum, Reynistað og Víðimýri skoðaðar, sem og torfbæirnir á Hólum og í Glaumbæ og bæjardyrahúsið á Reynistað. Þá kynntu þeir sér hvernig sögulegt efni er útbúið fyrir ferðamenn og hvernig við hyggjumst kynna það. Áhugi erlendra aðila á byggingararfi okkar og hvernig við varðveitum hann og nýtum vex með ári hveru. Fleiri hópar eru væntanlegir erlendis frá í sömu erindagjörðum og Skotarnir.

4. apríl 2013 – Ársskýrslan 2012
Út er komin ársskýrsla safnsins fyrir árið 2012 og er hún birt hér á heimasíðunni undir gagnabanka. Innihald skýrslunnar er sem hér segir:

Formáli bls. 1
Starfsfólk bls. 3
Sjálfboðaliðar. Söfnun heimilda, skráningar, Miðlun. Millisafnalán bls. 4
Smárit, Greinar og ræður bls. 5
Rannsóknaskýrslur, Greinar og erindi bls. 6
Ýmis verkefni, samstarf og ferðaþjónusta, Atvinnulífssýning, Víðimýrarkirkjugæsla, Á Sturlungaslóð, Íslenski safnadagurinn, Huggulegt haust, Sögusetur íslenska hestsins, Tyrfingsstaðaverkefnið bls. 7
Kljásteinavefstaður, Til minningar um Sínu og Ingimund bls. 9
Rýmri opnunartími og rökkurgöngur, Jólaljósahátíð, Viðgerðir bls. 10
Styrkir bls. 11
Safngestir bls. 12

Starfsemi fornleifadeildar 2012:
Strandminjaskránin, Málmeyjarrannssókn, Byggðasögurannsókn bls. 13
Gagnagrunnur um byggðasögu, Skagfirska kirkjurannsóknin, Rannsóknir og útgáfa niðurstaðna úr Keldudalsuppgreftri bls. 14Aðrar rannsóknir, Fornleifaskráning vegna deiliskipulags, Fornleifarannsókn að Skógum í Fnjóskadal bls. 15

Annáll húsnæðismála hjá Byggðasafni Skagfirðinga bls. 16

4. apríl 2013 – Styrkir frá Menningarráði Norðurlands vestra
Menningarráð Norðurlands vestra hefur úthlutað safninu 750 þús. kr. til þriggja verkefna. Þau eru: Byggðasögurannsóknir í Unadal og Deildaral.

Lesið í landið - fræðslurit.

Upplýsingaskilti fyrir safnsvæðið í Glaumbæ.

Menningarráð styrkir einnig námskeið í vefnaði og torfhleðslu sem fram fara á vegum Fornverkaskólans um 450 þús. kr.

19. febrúar 2013 – Rökkurganga
Í tilefni Vetrarhátíðar í Skagafirði býður safnið til rökkurgöngu í gamla bæinn í Glaumbæ, stundvíslega kl. 18 (kl. 6) fimmtudaginn 21. febrúar. Gengið verður til baðstofu þar sem sagðar verða sögur sem tengjast Glaumbæ.

Aðgangur er ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum ef fólk vill

8. febrúar 2013 – Starfsmenn í sviðsljósinu
Það má með sanni segja að starfsmenn safnsins séu í sviðsljósinu þessar vikurnar. Jóhann Viðar Hjaltason, safnvörður í Glaumbæ sumarið 2012 og Guðný Zoëga, deildarstjóri Fornleifadeildar, hafa verið á skjánum viku eftir viku. Jóhann Viðar er í Gettu betur liði Menntaskólans á Akureyri og Guðný er í keppnisliði Sveitarfélagsins Skagafjarðar í Útsvari

Þau standa sig frábærlega hvar sem þau koma við sögu.

31. janúar 2013 – Ferðamálastofustyrkur
Ferðamálastofa hefur úthlutað safninu 2.550.000 kr. úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að vinna nýtt skipulag fyrir safnsvæðið í Glaumbæ.

Marka þarf stefnu um það hvernig staðið skuli að uppbyggingu og viðhaldi svæðisins.Vinna þarf deiliskipulag fyrir safnsvæðið og skoða: nýja aðkomu bifreiða til að draga úr slysahættu, staðsetningu bílastæða, legu göngustíga og aðra stýringu safngesta. Meðal þess sem þarf að skoða er einnig möguleg stækkun safnsvæðisins sem næði til jarðlægra fornleifa austan við núverandi safnsvæði.

10. janúar – 2013 – Rit um miðaldakirkjur
Út er komið 1. hefti í ritröð sem Byggðasafn Skagfirðinga hyggst gefa út til að kynna niðurstöður rannsókna sem fram fara á vegum safnsins.

Starfsmenn safnsins hafa um árbil unnið að rann­sókn­um á kirkjumunum og kristnum grafreitum í byggðum Skaga­­­­­­­fjarðar undir rannsóknarheitinu Skagfirska kirkjurannsóknin. Í ritinu er fjallað um þá hlið rannsóknarinnar, sem byggist á könnun og samanburði ritheimilda, örnefna og munnmæla og skoðað hvernig þau falla að niðurstöðum nýjustu fornleifarannsókna á elstu kirkjugörðum. Óhætt er að fullyrða að margt hefur komið á óvart.
Höfundur er Sigríður Sigurðardóttir. Ritið er til sölu hjá Byggðasafninu, í Skagfirðingabúð, Safnbúð Þjóðminjasafns og víðar. Hægt er að panta ritið á bsk@skagafjordur.is
Menningarsjóðir Norðurlands vestra og Kaupfélags Skagfirðinga styrktu útgáfu ritsins. 

2. janúar 2013 – Stiklað á starseminni 2012
stiklaðá starfsemi safnsins á árinu 2012 og stuttlega greint frá helstu aðföngum, verkefnum, samstarfi og áföngum. Í ársskýrslu safnsins, sem mun koma út á þorranum, verður nánar greint frá þessum atriðum og öllum öðrum þáttum starfseminnar.

Starfsfólk. Samtals unnu sautján manns við safnið á árinu 2012 í 7,8 stöðugildum. Fimm voru í heils­árs­stöðum, tólf voru sumarráðnir safnverðir og verkefnaráðnir sérfræðingar til skamms tíma í rannsóknum. Auk launaðra starfsmanna tóku átta sjálfboðaliðar þátt í ýmsum viðburðum safnsins á árinu.
Safngestir. Sýningagestir safnsins á árinu 2012 voru 35.050. 32.813 gestir komu í Glaumbæ og 2.237 í Minjahúsið á Sauðárkróki.
Safngripaskráning. 500 nýir gripir voru skráðir í safnið. Flestir voru úr munasafni Kristjáns Runólfssonar.
Útgáfa. Smáritið Gamlir byggingahættir (Traditional building methods) var þýtt á ensku og gefið út. Safnið gaf einnig út bókin Lífsins blóma­systur eftir Ingu Arnar þjóðfræðing og textílkennara. Í prentun er 1. hefti rannsóknarritraðar. Þetta fyrsta hefti fjallar um Miðaldakirkjur 1000-1318 í Skagafirði.
Viðgerðir á húsnæði. Gert var við Langabúr, Litlabúr, Brandahús og Baðstofu í Glaumbæ, smíðaður var nýr stigi við Áshús­ið. Í Minjahúsinu voru lagaðar rafmagnslagnir og tengingar.
Styrkir. Safnið naut góðra styrkja til margvíslegra verkefna. Fornleifasjóður veitti 4,5 millj. kr. til rannsókna, 2,4 millj. fengust frá Safnasjóði til reksturs og skráninga, 1,1 millj. kom frá Menningarráði Norðurlands vestra til ýmissa verkefna, 700 þús. kr. frá Menningarsjóði Kaupfélags Skagf­irði­nga og 300 þús. kr. fengust frá Húsafriðunarsjóði til Tyrfingsstaðaverkefnisins.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið
veitti Forn­verka­skóla­num styrk upp á 500 þú. kr. og Menningarráð Norðurlands vestra 550 þús. kr. sem nýttust til námskeiðahalds á Tyrfingsstöðum og móttöku skosks hóps í leit að fræðslu um íslenskan byggingararf og sjálfbæra ferðaþjónustu.
Ýmis verkefni. Safnið tók þátt í atvinnulífssýningu þeirri sem sett var upp í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í apríllok, sýndi gömul handbrögð á safnadaginn í Glaumbæ og opnaði Minjahússýningarnar í tilefni
Huggulegs hausts 13. og 14. október og þann 1. desember þegar kveikt var á jólatrénu á Kirkjutorgi. Á aðventunni var boðið upp á rökkurgöngur í gamla bæinn í Glaumbæ.
Sögusetur íslenska hestsins. Starfsfólk safnsins liðsinnti Sögusetri íslenska hestsins með vinnuframlagi, safngripaláni og mörgu fleiru
Ferðaþjónusta. Í þeirri viðleitni að svara kalli um meiri þjónustu við ferðamenn utan hefðbundins ferðamannatíma voru safnið og Áskaffi opin fyrir gesti flestar helgar frá hausti til jóla.
Á Sturlungaslóð. Starfsfólk safnsins lagði krafta sína fram til ferðaþjónustuverkefnisins Á Sturlungaslóð með ýmsu móti.
Varðveisla handbragða, handverks og –kennsla
Námskeið í byggingahandverki. Fornverkaskólinn, sem er eitt af samstarfsverkefnum safnsins, hélt fjögur námskeið í torfhleðslu og grindarsmíði. Um helmingur þeirra 27 nemenda sem sóttu námskeiðin komu erlendis frá. Þrjú námskeið voru haldin á Tyrfingsstöðum og eitt í Hjarðarhaga á Jökul­dal.
Kljásteinavefstaður. Safnið stóð fyrir smíði kljásteinavefstóls (vefstaðar) sem settur var upp í Auðunarstofu hinni nýju á Hólum í Hjaltadal. Stóllinn var unninn í sam­starfi við Horda­land­museum­senteret í Noregi og Fornverkaskól­ann.
Rannsóknir
Málmeyjarrannssókn. Búsetuminjar voru rannsakaðar í Málmey með starfsmönnum Byggðasögu Skaga­fjarð­ar. Þar fundust byggðaleifar frá 10.-11. öld.
Strandminjaskráning. Skráðar voru strandminjar, sem eru í hættu vegna landeyðingar af völdum ágangs sjávar, á austurströnd Skagafjarðar.
Handbragða- og áhaldarannsókn. Hafin er rannsókn á handbrögðum og verkfærum sem tengjast byggingararfi og -efni.

Kirkjusögurannsókn. Unadanfarin fimm ár hafa farið fram rannsóknir á skagfirskri kirkjusögu með áherslu á elstu kirkjur. Afrakstur og niðurstöður sagnfræðilegs hluta rannsóknanna kemur úr prentun í ársbyrjun 2013.
Rannsókn á fornum járnvinnsluminjum. Viðamikil rannsókn á 10.-13. aldar járnvinnslu­minjum fór fram að Skógum í Fnjóskadal á vegum Fornleifadeildar safnsins.
Seylukirkjurannsókn. Safnið stóð fyrir og vann að uppgrefti á 11. aldar kirkju­garði á Stóru-Seylu á Langholti í samstarfi við bandaríska sérfræðinga.  

9. desember 2012 – KS styrkir safnið
Þann 18. desember  úthlutaði Menningarsjóður Kaupfélags Skagfirðinga styrkjum til 20 verkefna í Skagafirði og víðar.
Byggðasafn Skagfirðinga hlaut tvo styrki frá Menningarsjónum að þessu sinni. 500 þús. kr. styrkur var veittur til Tyrfingsstaðaverkefnisins  og 200 þús. kr til útgáfu rits um  miðaldakirkjur 1000-1318 í Skagafirði.
Við styrkafhendinguna kom fram að Menningarsjóðurinn er 50 ára á þessu ári. Byggðasafn Skagfirðinga óskar Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga til hamingju með hálfrar aldar starfsafmælið 

10. desember 2012 - Rökkurgöngur
Starfsfólk safnsins býður gestum að rölta með sér um gamla bæinn í Glaumbæ tvo sunnudaga nú á aðventunni og huga að jólum og jólahaldi á þeim tíma þegar bærinn var í notkun.
Nú beinum við athyglinni að fígúrum sem fólki leiddist á þessum árstíma og sumir voru hræddir við, eins og jólasveinum, jólaketti, álfum og öðrum furðuverum.
Við göngum í bæinn stundvíslega kl. 16, sunnudaginn 9. desember og sunnudaginn 16. desember. Vasaljós er gott að hafa meðferðis í gönguna.
Búið er að skreyta Áshúsið hátt og lágt og hefur það sjaldan verið jólalegra.
Áskaffi er opið sömu helgar, laugardag og sunnudag, frá 12 til 18. Þar er heitt súkkulaði, kaffi, eða te á könnum og gómsætar veitingar. Í hádeginu sunnudaginn 9. desember er steik og þann 16. er kjötsúpa að hætti hússins.

29. október 2012 – Tyrfingsstaðaverkefnið fær stuðning.
Safnið sótti um styrk til Akrahrepps til að halda áfram viðgerðum og endurnýjun bygginga á Tyrfingsstöðum á Kjálka. Unnið hefur verið að viðgerðum á húsum á Tyrfingsstöðum og kennslu byggingahandverks frá 2007. Verkefnið hefur gengið vel en nú er komið að kostnaðarsömum áföngum sem verður að vinna í nokkrum stórum aðgerðum, sem henta ekki allar fyrir námskeið Fornverkaskólans en hann hefur nýtt hús jarðarinnar til að kennslu viðgerða og gamalla handbragða sem þeim tengjast.

Safnið ber ábyrgð á Tyrfingsstaðaverkefninu og sér um að viðgerðir og endurnýjun húsa á Tyrfingsstöðum fari fram samkvæmt markmiðum og áherslum minjaverndar og varðveislu. Safnið skráir og myndar allar framkvæmdir og safnar heimildum um verkefnið um leið og það er unnið. Safnið kostar einnig allt efni sem unnið er með á Tyrfingsstöðum og vinnu sérfræðinga við skráningar og viðgerðir sem fram fara utan námskeiða Fornverkaskólans.   

Akrahreppur ætlar að styrkja verkefnið um eina milljón króna á árinu 2013, og tvö húndruð þúsund á hverju ári 2014, 2015 og 2016. Samtals um 1,6 millj. kr. Stuðningur Akrahrepps er ómetanlegur.

7. október – Huggulegt haust
Byggðasafnið tekur þátt í huggulegu hausti um næstu helgi.

Minjahússýningar verða opnar laugardaginn 13.okt. og sunnudaginn 14. okt. frá 12 til 18 báða dagana. Klukkan eitt (kl.13) mun Sara R. Valdimarsdóttir fjalla um skáldkonuna Guðrúnu frá Lundi.
Skagafjarðarsafnarútan fer frá Gestastofu sútarans kl 13 og kemur í Minjahúsið. Rútan fer þaðan kl. 13:30.

22. ágúst 2012 – Fornverkaskólinn færir út kvíarnar
Dagana 13.-16. ágúst var haldið námskeið í torf- og grjóthleðslu í Hjarðarhaga á Jökuldal á vegum Fornverkaskólans. Nemendur voru átta. Flestir voru austfirskir. Lengst að komin var frönsk stúlka. Verkefnið fólst í að gera við fjárhús sem standa í túnjaðrinum á Hjarðarhaga, við þjóðveg 1. 

Byggingahandverksþáttur Fornverkaskólaverkefnisins hefur gengið vel og er ástæða til að fagna áhuga Austfirðinga á honum. Kennari á námskeiðinu fyrir austan var S. Helgi Sigurðsson torf- og grjóthleðslumeistari sem kennt hefur á flestum byggingahandverksnámskeiðum Fornverkaskólans. Bryndís Zoëga, verkefnisstjóri Fornverkaskólans og skráningastjóri hjá Byggðasafni Skagfirðinga, undirbjó námskeiðið og stýrði því.

7. ágúst 2012 – Ofið í Auðunarstofu
Föstudaginn 10. ágúst hefst dagskrá Hólahátíðar með fyrirlestri Ragnheiðar Þórsdóttur vefara, í Auðunarstofu kl. 20:00. Þar mun hún fjalla um miðaldavefnað og hvernig ofið var við kljásteinsvefstað (kljásteinsvefstól) sem þar hefur verið settur upp á vegum Byggðasafns Skagfirðinga og Fornverkaskólans. Eftir hádegi laugardaginn 11. ágúst mun hún sýna hvernig röggvarfeldur var ofinn.

Smíði vefstólsins var á vegum Byggðasafns Skagfirðinga og Fornverkaskólans en smíðin og vefnaðurinn er afurð samstarfs þeirra við Safnamiðstöð Hörðalands í Noregi.

5. ágúst 2012 – Fornleifarannsókn á Stóru-Seylu
Nú stendur yfir uppgröftur á vegum Fornleifadeildar Byggðasafnsins á 11. aldar kirkjugarði í landi Stóru-Seylu á Langholti í Skagafirði. Rannsóknin hefur leitt í ljós leifar kirkjugarðs og kirkju sem aflögð hafa verið líklega nokkru fyrir gjóskufallið mikla úr Heklu 1104. Garðurinn hefur verið hringlaga, um 17m í þvermál og virðist hafa legið rétt um sex metrum sunnan við 11. aldar bæjarhúsin. Grjótlögð stétt liggur frá norðvesturhorni garðs að bæjarhúsum og hefur hlið hans því ekki legið til vesturs eins og síðar varð alsiða.

Búið er að grafa upp leifar lítils mannvirkis, líklega kirkju, fyrir miðju garðsins. Hún hefur verið af svokallaðri stólpagerð sem er með elstu gerð stafverkshúsa þar sem sverir hornstólpar hafa verið grafnir í jörðu en útveggir (aurstokkar) byggingarinnar að öðru leyti legið ofanjarðar á einfaldri steinhleðslu. Engin merki hafa fundist um torfveggi. Leifar samskonar trékirkna fundust við fornleifarannsóknir að Neðra-Ási í Hjaltadal og í Keldudal í Hegranesi.

Forsaga rannsóknarinnar er sú að hringlaga mannvirki kom óvænt í ljós við jarðsjárrannsóknir á fornu bæjarstæði á Seylu, sumarið 2009, í brekkurót á sléttlendi um 70m austan og neðan við þar sem bærinn stóð fram yfir miðja 20. öldina. Engin merki voru um þessar elstu byggðaleifar á yfirborði jarðar en miklar mannvistarleifar komu í ljós við jarðsjármælingar bandarískra sérfræðinga, sem stundað hafa jarðsjár- og fornleifarannsóknir í Skagafirði undanfarinn áratug. Við mælingarnar kom í ljós hringlaga mannvirki og virtist lögun þess og stærð benda til að þar kynni að liggja í jörðu forn kirkjugarður.

Könnunarskurður  staðfesti að þar hefðu menn verið grafnir að kristnum sið á 11. öld og var tilvist kirkjugarðsins þar með sönnuð. Það sem er óvænt við þennan fund er að á Seylu var annar þekktur kirkjugarður frá miðöldum. Sá garður er enn vel greinanlegur á yfirborði og liggur um 50m vestan og ofan garðsins sem nú er rannsakaður.

Ýmislegt forvitnilegt hefur komið í ljós við rannsóknina. Kirkjan virðist reist ofan á leifum eldra mannvirkis, líklega smiðju. Þekkt er að aflagðar kirkjur hafi síðar orðið að smiðjum en hér virðist hið gagnstæða hafa átt sér stað. Alls hafa fimm grafir verið rannsakaðar og var beinagrind fullorðins karlmanns í einni þeirra, beinagrind ungbarns í annarri en úr öðrum gröfum virðast beinin að mestu hafa verið fjarlægð. Í kristnirétti lögbókarinnar Grágásar, sem ritaður var á fyrri hluta 12. aldar, er ákvæði um að bein skuli flutt úr kirkjugörðum séu þeir einhverra hluta vegna lagðir niður. Víst er að kirkjugarðurinn á Seylu hefur verið aflagður áður en lögin eru rituð en flutningur beina úr honum kann að vera vísbending um að siðurinn sé nokkru eldri. Þessu ákvæði virðist þó ekki almennt hafa verið fylgt þar sem fáar tómar grafir hafa fundist við rannsóknir á skagfirskum kirkjugörðum. Ætla má að beinin hafi verið færð og grafin á ný í yngri kirkjugarðinum þegar að bæjarstæðið var flutt og nýr garður gerður.

Rannsóknin sem nú fer fram er samstarfsverkefni Fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga og bandaríska SASS rannsóknarteymisins, sem stýrt er af Douglas Bolender og John Steinberg. Rannsóknin er tvíþætt, annarsvegar er hún framhald Skagfirsku kirkjurannsóknarinnar sem Byggðasafnið hefur staðið fyrir undanfarin ár en hinsvegar er hún hluti rannsóknar sem miðar að því að þróa aðferðarfræði við greiningu grafa og fornra kirkjugarða með jarðsjá. Vonast er til að uppgreftri kirkjugarðsins á Seylu ljúki næsta sumar  og mun þá skýrast enn fremur sú mynd sem við höfum af fjölda grafa og gerð og þróun bygginga innan garðsins.
Rannsóknin er styrkt af Fornleifasjóði, bandaríska rannsóknarsjóðnum (National Science Foundation) og rannsóknarsjóði Kenyon College, Ohio

Loftmyndin sýnir útlínur 11. aldar kirkjugarðsins. Myndina tók John Schoenfelder.

15. júní 2012 – Afmæli
Notið tækifærið, njótið dagsins!
Í tilefni þess að í dag, 15. júní, eru 60 ár liðin frá því að sýning var opnuð í gamla bænum í Glaumbæ, býður safnið gestum sínum að ganga í bæinn, gjaldfrítt. Byggðasafn Skagfirðinga er stofnað 1948 en sýningin í Glaumbæ.

13. júní 2012 - Fjörugt í Fornverkaskóla
Dagana 7-10. júní var haldið torfhleðslu- og grindasmíðanámskeið á Tyrfingsstöðum. Nemendur voru fjórir. Hlóðu þeir hluta af baðstofuveggjum, mátu ástand grindviða og endurnýjuðu þar nokkrar stoðir. Sömuleiðis var farið í viðgerðir á fjósinu. Kennarar voru Helgi Sigurðsson og Bragi Skúlason.
Nokkrum dögum fyrir þetta námskeið, á sama tíma og unnið var að smíði kljásteinavefstóls, fengu ellefu landfræðinemendur og prófessor þeirra, við háskólann í Southern Connecticut, að spreyta sig á torfhleðslu. Þeir tóku niður og hlóðu upp suðurvegg baðstofunnar. Þetta er í þriðja sinn sem háskólanemar frá Connecticut sækja námskeið á Tyrfingsstöðum.
14. og 15. júní ætla sex Skotar að læra torfviðgerðir og meðferð torfs. Í hópnum er fagfólk úr ýmsum greinum minjavörslu og ferðaþjónustu í Skotlandi.
Fyrrverandi Fornverkaskólanemandi frá Hollandi, sem ætlar að hlaða langhús úr torfi í heimalandi sínu, kom í dag með hóp myndatökumanna frá hollenska sjónvarpinu. Þeir ætla að dvelja í Skagafirði í nokkra daga og gera tvo 30 mín. heimildaþætti um torfhús og torfhleðslu. Tökur hefjast á námskeiðinu á Tyrfingsstöðum. 
Sýningargestum í Glaumbæ og Minjahúsinu fjölgar eftir því sem á líður svo að safn- og staðarverðir þar hafa nóg að gera og ekki er síður mikið umleikis hjá starfsmönnum fornleifadeildar eins og sjá má í frétt á Feyki.

31. maí 2012 – Smíðaður vefstóll að miðaldagerð
Í
morgun hófst smíði miðaldavefstóls (vefstaðar) sem safnið vinnur að í samstarfi við Safnamiðstöð Hörðalandsfylkis í Noregi og Fornverkaskólann. Verkið er unnið fyrir styrk frá Menningarráði Norðurlands vestra og Hólanefnd, sem gefur mestallt efni í stólinn. Trésmiðjan Ýr hýsir verkefnið á meðan á smíðunum stendur. Stóllinn verður settur upp í Auðunarstofu á Hólum, enda er samhljómur í byggingaraðferðum við smíði hússins og vefstólsins. Bæði standa þau fyrir norskan menningararf og tengsl við Noreg á miðöldum. 

Byggðasafn Skagfirðinga hefur verið og verður í margskonar samstarfi við Hörðlendinga um varðveislu minjaarfs og -erfða, hvort sem það er að kanna og kenna hverfandi byggingahandverk eða önnur gömul handbrögð. Stefnt er að því að halda vefnaðarnáskeið í sumar þegar vefstólinn verður tilbúinn.

15. maí 2012 – Smárit og gamlar byggingaaðferðir á ensku
Út er komið smáritið Traditional building methods, sem er þýðing Önnu H. Yates á smáritnu
Gamlir byggingahættir, sem var skrifað vegna eftirspurnar um ítarefni með fræðslu um gamla byggingarhætti  og vaxandi fjölda útlendra nemenda á Fornverkaskólanámskeiðum. Í smáritinu er bent á dæmi um mismunandi byggingar og drepið á helstu afbrigði grinda- og þakgerða og veggja­hleðslu. Fjallað er al­­mennt um húsagerðir og svo hvert afbrigði fyrir sig en einkum horft til burðarvirkis (húsgrinda og þakviða) í búpenings­húsum. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að gefa hug­­­­­mynd um fjöl­breyti­leika byggingar­arfs­ins.

Glaumbær  |  561 Varmahlíð  |  Sími 453 6173  |  byggdasafn@skagafjordur.is