Fara í efni

Áramót

Við óskum landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þökkum gestum, samstarfsfólki og velunnurum fyrir árið sem var að líða. Þá er rétt að líta um öxl og horfa yfir farin veg. Tímamót eru hjá Byggðasafninu um þessar mundir þegar leiðir skilja við dr. Guðnýju Zoëga fornleifafræðing eftir 16 ára farsælt starf hjá safninu.

Guðný hefur starfað sem deildarstjóri Fornleifadeildar Byggðsafns Skagfirðinga frá árinu 2003. Á þessu 16 ára tímabili hefur hún unnið mikið og gott starf í þágu Byggðasafnsins, hún hefur stundað öflugar og sérhæfðar fornleifarannsóknir við góðan orðstýr og átti ríkan þátt í að Byggðasafnið hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2016. Störf Guðnýjar og annarra starfsmanna fornleifadeildar hafa skipt­ verulegu máli fyrir fag­leg störf safnsins og ímynd þess. Fyrir framlag hennar til safnsins sem og þekkingarsköpunar svæðisins verður seint fullþakkað. Við færum Guðnýju hjartans þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og óskum henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

41 þúsund gestir

Flutningar á safnkosti Byggðasafnsins hófust í nóvemberlok og gengu vonum framar, þar til að sprengilægðin skall á í desember. Búið er að flytja 170 af 220 vörubrettum af safnmunum úr Minjahúsinu að Borgarflöt 17-19 á Sauðárkróki. Flutningar halda áfram nú í ársbyrjun. Á háannatíma safnsins í sumar störfuðu tólf safn- og staðarverðir við safngæslu og móttöku gesta. Á árinu 2019 lögðu alls 41.301 leið sína á báða viðkomustaði safnsins, 35.096 í Glaumbæ og 6.205 í Víðimýri. Þetta er svolítil fækkun frá fyrra ári, eða 1.466 færri, þar af 3.314 færri í Glaumbæ en 1.848 fleiri í Víðimýri.

Meðfylgjandi gröf sýna dreifingu gesta á milli mánaða og ára í Glaumbæ og í Víðimýrarkirkju. Grafið fyrir gestakomur í Glaumbæ sýnir hvernig gestakomur hafa verið að dreifast sífellt meira yfir tímabilið. Þess má geta að umtalsvert fleiri koma á staðinn en kaupa sig ekki inn í bæ eða kirkju, nú stendur hins vegar til að loka safnasvæðinu umhverfis Glaumbæ af. Með aflokun safnasvæðisins er gamla bænum betur hlýft við ágangi og með því næst að auki betri stýring gesta um svæðið.

Safnið stóð fyrir tíu viðburðum á árinu, níu þeirra í Glaumbæ og einn á Tyrfingsstöðum. Viðburðirnir fengu góðar undirtektir og voru að jafnaði vel sóttir. Alls gerðust 48 manns árskortshafar að sýningum safnsins í Glaumbæ en sú nýbreytni var tekin upp á árinu að þegar lögheimilisíbúar Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar heimsækja safnið gildir miðinn í ár frá kaupum hans óháð fjölda heimsókna. Með þessu er vonast til fólk venji komur sínar sem oftast á safnið, mæti á viðburði með fjölskyldu og gesti, og taki þannig virkari þátt í starfsemi safnsins.

Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga færir gestum safnsins hjartans þakkir fyrir komuna í Glaumbæ og Víðimýri á liðnu ári!