Íslenskur arfur í Ameríku, er vinnuheiti á verkefni sem lýtur að því að safna heimildum um íslenska gripi á söfnum og í einkaeign vestan hafs. Samstarfsaðilar ásamt byggðasafninu eru New Iceland Heritage Museum Gimli og Vesturfarasetrið á Hofsósi. Verkefnið hófst haustið 1999 er safnstjóri byggðasafnsins dvaldi um nokkurra mánaða skeið í Manitobafylki í Kanada við rannsóknir og ráðgjöf við safnið í Gimli í því markmiði að efla tengsl milli Íslands og Norður-Ameríku og rannsóknir um Vesturheimsferðir.
Byggðasafnið setti upp fyrstu sýningu Vesturfarasetursins, Annað land, annað líf, sem fjallar um Vesturheimsferðir 1870-1915.