![]() |
![]() |
![]() |
Menningararfurinn er mikilvæg auðlind fyrir íslenska þjóð. Forsenda farsællar auðlindanýtingar er þekking og skilningur á þeim þáttum sem felast í menningararfi okkar. Uppbygging náms í fornum verkháttum samræmist þeim áherslum sem safnið hefur um varðveislu menningararfs og uppbyggingu vandaðrar menningarferðaþjónustu í Skagafirði.
Safnið hefur verið í samstarfsverkefni sem kallað er Fornverkaskólinn, með Tréiðnadeild Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og ferðamáladeild Hólakóla frá 2007. Verkefnið gengur út á að kenna gömul handbrögð og efla handverksþekkingu. Upphafið var að kenna handbrögð sem varða varðveislu gamalla bygginga og verkfæra. Allir þeir sem kynni hafa af varðveislu byggingararfs okkar hafa í einhverjum mæli jafnframt orðið þess áskynja að án manna með þekkingu og reynslu á þeim handverksaðferðum sem byggingararfurinn er sprottinn úr, glatast hann á skömmum tíma.
Úti í Evrópu þar sem markverðustu byggingarminjar eru oftar en ekki úr steini sem endist öldum og jafnvel árþúsunum saman, lúta störf að varðveislu að vissu leyti öðrum lögmálum en við okkar aðstæður. Þegar um er að ræða byggingarefni eins og torf sem aðeins endast í fáein ár eða áratugi getur þurft að endurbyggja hús og önnur mannvirki á nokkurra ára eða áratuga fresti. Þá ríður á því að handverksþekking sem upphaflega mannvirkið spratt af sé fyrir hendi. Ef svo er ekki þá er hætt við að húsið eyðileggist eða verði endurbyggt í annarri mynd en það hafði og glati þar með menningarsögulegu gildi sínu.
Þetta má orða sem almenna reglu: forsenda góðrar varðveislu byggingararfs er þekking og þjálfun í þeirri handverksmenningu sem skapaði viðkomandi byggingar. Því skammlífari sem byggingarefnin eru þeim mun mikilvægara er handverkið í varðveisluferlinu. Í þessu samhengi hefur torfið sem byggingarefni nokkra sérstöðu. Timbur og bárujárn halda enn góðu gildi í nútíma byggingariðnaði og iðnaðarmenn kunna með þau að fara enda þótt aðferðir hafi breyst frá því sem áður var. Góður smiður þarf bara viðbótarþjálfun til þess að geta unnið með þessum efnum að viðhaldi friðaðra húsa. Torfið er hins vegar ekki lengur notað sem byggingarefni. Það tilheyrir handverksmenningu sem aðeins lifir vegna þess að ákveðið hefur verið að halda við nokkrum fjölda torfbæja sem taldir eru hafa menningarsögulegt gildi.
Segja má að íslenskur torfbær sé aldrei fullbyggður. Hann er nánast samfellt byggingarferli. Á hverju ári þarf að dytta að honum og flest árin þarf að endurbyggja einhvern hluta hans. Hús á Tyrfingsstöðum á Kjálka sem notuð hafa verið sem kennsluefni, vettvangur fornverkakennslu, hafa risið á ný hvert af öðru.
Sumarið 2012 var smíðaður vefstaður að miðaldagerð, eins og notaðir voru fram á 19. öld, í þeim tilgangi að gera fólki kleift að læra að smíða þá sjálft og nota til vefnaðar.