Söfnunarstefna

Byggðasöfn eiga að halda utan um menningararf og munaflóru viðkomandi byggða. Fæst þeirra ráða við að varðveita alla gripi úr stórum flokkum safnmuna og því verður að afmarka söfnunina. 


Söfnun úr öðrum flokkum en þeim sem megináhersla er lögð á getur verið nauðsynleg í tilvikum og í samhengi við kröfur rannsókna og/eða sýninga. Safnið tekur á móti munum sem bjóðast og leitar eftir munum sem vantar í meginsöfnunarflokkana. Safnið kaupir ekki muni nema í algjörum undantekningartilvikum. Safngripir eru skráðir í aðfangabók og stafrænt skráðir í Sarp, sem er sameiginlegur gagnagrunnur minjasafna. Sumir gripir eru skráðir á biðlista, sem þýðir að þeir verða ekki eiginlegir safngripir fyrr en þeir hafa sannað gildi sitt eða að ljóst er að betri eintök fást ekki.

Megin söfnunarflokkar Byggðasafns Skagfirðinga eru hér upp taldir (sjá nánar í Safnstefnu 2014-2018).

Atvinnuhættir: Langflestir landbúnaðartengdir munir safnsins eru frá því fyrir vélvæðingu. Tekið er við veiðarfærum sem notuð voru við veiði í ám og vötnum, við dýra- og fuglaveiði, með flekaveiðar við Drangey sérstaklega í hugaBent er á Síldarminjasafnið á Siglufirði í þeim tilvikum þegar gripir bjóðast sem tengjast sjávarútvegi að öðru leyti.

Heimilishöld: Áhersla er lögð á að safna heimilismunum í heildum og öllu sem varpar ljósi á aðbúnað í torfbæjum og í 20. aldar híbýlum. Sýningarnar í Glaumbæ og í Áshúsi eru helgaðar þessum málaflokki að mestu leyti. Lítil áhersla er lögð á að safna fatnaði, eða einungis til að sýna dæmi um klæðnað fólks við hin ýmsu tækifæri, svo sem vinnu við bústörf og á verkstæðum og klæðnaði er tengist uppsetningu sýninga hverju sinni. 

Híbýlahættir: Innastokksmunum og upplýsingum um hús og húsagerðir í Skagafirði er safnað, með áherslu á heimildir sem tengjast torfbyggingum. Á árunum 1991 til 1997 tók safnið í sína umsjá tvö 19. aldar timburhús til að sýna hvernig húsagerðir tóku við af torfbæjunum til sveita á þeim tíma. Þetta eru Gilsstofan sem á sér fyrirmynd frá miðri 19. öld og Áshúsið sem var byggt á árunum 1883-1986. Bæði húsin standa við bæjarhólinn í Glaumbæ. 

Heimilisiðnaður: Safnað er tækjum sem tengjast tóskap, útskurði og öðrum heimilisiðnaði. Einnig er útskornum gripum, gull- og silfursmíðuðum gripum og verkfærum sem tilheyra þeirri iðju safnað. Textílum sem tengjast sérstökum viðfangsefnum er safnað, þó ekki í stórum stíl.

Fjölskylduhættir: Safnað er munum sem tengjast tyllidögum og lifnaðarháttum í torfbæjum og varpa ljósi á húsbúnað og áhrif tísku í þeim híbýlum. Einnig munum og upplýsingum um fjölskylduhætti til sveita, á 20. öld, einkum sem snerta umbyltingar í heimilisháttum og breyttar fjölskylduvenjur. Safnað er heimildum um áhrif tísku og tæknivæðingu á fjölskylduvenjur. 

Samgöngur: Reiðtygi, klyfjareiðskapur, sleðar, skíði og skautar og aðrir gripir sem tengjast ferðalögum á landi fyrir véla- og bílaöld eru áhugaverðir fyrir safnið. Áhersla er lögð á að safna munum sem tengjast notkun hesta og hvernig fólk útbjó sig til ferðalaga. Engin áform eru um að safna bílum, flugvélum eða skipum og póst- og símaminjum frá 20. öld og er því vísað til annarra safna.

Verslun og viðskipti: Heimildum um kaupmennsku á 20. öld og skiptiverslun til sveita er safnað. Verslunarminjum er þó yfirleitt  vísað til annarra safna.

Iðnaður: Tekið er við iðnaðarminjum í heildum, þar sem hægt er að sjá hvernig menn höguðu smíðum í heimahúsum og á verkstæðum á upphafsárum iðnvæðingarinnar og sem brúa bilið frá handverkfærum til vélvæðingar. Í safninu hafa verið vistuð tré-, járn- og úrsmíðaverkstæði í heilu lagi. Engu er safnað sem flokkast undir verksmiðjuframleiðslu. Verksmiðjumunum er vísað til Iðnaðarasafnsins á Akureyri eða Síldarminjasafnsins á Siglufirði.

Félagssaga: Munir sem þykja einkenna skagfirskt félagslíf eru áhugaverðir og safnað er munum sem varpa ljósi á skemmtanir og tónlistarflutning í heimahúsum og sönglíf í Skagafirði.

Glaumbær  |  561 Varmahlíð  |  Sími 453 6173  |  byggdasafn@skagafjordur.is