Atvinnuhættir: Langflestir landbúnaðartengdir munir safnsins eru frá því fyrir vélvæðingu. Tekið er við veiðarfærum sem notuð voru við veiði í ám og vötnum, við dýra- og fuglaveiði, með flekaveiðar við Drangey sérstaklega í huga. Bent er á Síldarminjasafnið á Siglufirði í þeim tilvikum þegar gripir bjóðast sem tengjast sjávarútvegi að öðru leyti.
|
Heimilishöld: Áhersla er lögð á að safna heimilismunum í heildum og öllu sem varpar ljósi á aðbúnað í torfbæjum og í 20. aldar híbýlum. Sýningarnar í Glaumbæ og í Áshúsi eru helgaðar þessum málaflokki að mestu leyti. Lítil áhersla er lögð á að safna fatnaði, eða einungis til að sýna dæmi um klæðnað fólks við hin ýmsu tækifæri, svo sem vinnu við bústörf og á verkstæðum og klæðnaði er tengist uppsetningu sýninga hverju sinni.
|
Híbýlahættir: Innastokksmunum og upplýsingum um hús og húsagerðir í Skagafirði er safnað, með áherslu á heimildir sem tengjast torfbyggingum. Á árunum 1991 til 1997 tók safnið í sína umsjá tvö 19. aldar timburhús til að sýna hvernig húsagerðir tóku við af torfbæjunum til sveita á þeim tíma. Þetta eru Gilsstofan sem á sér fyrirmynd frá miðri 19. öld og Áshúsið sem var byggt á árunum 1883-1986. Bæði húsin standa við bæjarhólinn í Glaumbæ.
|
Heimilisiðnaður: Safnað er tækjum sem tengjast tóskap, útskurði og öðrum heimilisiðnaði. Einnig er útskornum gripum, gull- og silfursmíðuðum gripum og verkfærum sem tilheyra þeirri iðju safnað. Textílum sem tengjast sérstökum viðfangsefnum er safnað, þó ekki í stórum stíl.
|
Fjölskylduhættir: Safnað er munum sem tengjast tyllidögum og lifnaðarháttum í torfbæjum og varpa ljósi á húsbúnað og áhrif tísku í þeim híbýlum. Einnig munum og upplýsingum um fjölskylduhætti til sveita, á 20. öld, einkum sem snerta umbyltingar í heimilisháttum og breyttar fjölskylduvenjur. Safnað er heimildum um áhrif tísku og tæknivæðingu á fjölskylduvenjur.
|
Samgöngur: Reiðtygi, klyfjareiðskapur, sleðar, skíði og skautar og aðrir gripir sem tengjast ferðalögum á landi fyrir véla- og bílaöld eru áhugaverðir fyrir safnið. Áhersla er lögð á að safna munum sem tengjast notkun hesta og hvernig fólk útbjó sig til ferðalaga. Engin áform eru um að safna bílum, flugvélum eða skipum og póst- og símaminjum frá 20. öld og er því vísað til annarra safna.
|
Verslun og viðskipti: Heimildum um kaupmennsku á 20. öld og skiptiverslun til sveita er safnað. Verslunarminjum er þó yfirleitt vísað til annarra safna.
|
Iðnaður: Tekið er við iðnaðarminjum í heildum, þar sem hægt er að sjá hvernig menn höguðu smíðum í heimahúsum og á verkstæðum á upphafsárum iðnvæðingarinnar og sem brúa bilið frá handverkfærum til vélvæðingar. Í safninu hafa verið vistuð tré-, járn- og úrsmíðaverkstæði í heilu lagi. Engu er safnað sem flokkast undir verksmiðjuframleiðslu. Verksmiðjumunum er vísað til Iðnaðarasafnsins á Akureyri eða Síldarminjasafnsins á Siglufirði.
|
Félagssaga: Munir sem þykja einkenna skagfirskt félagslíf eru áhugaverðir og safnað er munum sem varpa ljósi á skemmtanir og tónlistarflutning í heimahúsum og sönglíf í Skagafirði.
|