Smiðir Áshússins
Aðalsmiður hússins, ásamt Ólafi Sigurðssyni (1822-1908) bónda í Ási, var Þorsteinn Sigurðsson smiður (f.1859 d. í Vesturheimi). Einnig mun Einar B. Guðmundsson (1841-1910) brúarsmiður og alþingismaður á Hraunum í Fljótum hafa haft hönd í bagga með smíðunum, en hann útvegaði Ólafi teikningu, sem var hans eigið hús, sem hann smíðaði ásamt Jóni Mýrdal skáldi og smið árið 1874 að Hraunum. Það hús stendur enn og er með sömu hlutföllum og Áshúsið en ýmsar útfærslur innandyra eru aðrar.
Þorsteinn smiður var sonur Sigurðar járnsmiðs Sigurðssonar í Hjaltastaðakoti og vann með honum og lærði á unglingsaldri, áður en hann fór í trésmíðanám til Kaupmannahafnar. Þaðan kom hann 1882 og flutti á Sauðárkrók. Hann varð fljótlega höfuðsmiður héraðsins. Hann byggði mörg timburhús í Skagafirði, en í dag er hann einkum þekktur fyrir kirkjubyggingar sínar s.s. Bólstaðarhlíðarkirkju (1888), Sauðárkrókskirkju (1891-1892), Auðkúlukirkju (1894), Blöndósskirkju (1894-1895), Silfrastaðakirkju (1896)og Goðdalakirkju gerði hann upp eftir að hún fauk (1904).
Eiríkur Jónsson (1863-1848) í Djúpadal í Blönduhlíð var sveinn hjá Þorsteini fyrstu árin eftir að hann kom í Skagafjörð og varð Eiríkur fljótlega aðalsmiður í framhéraðinu og vann víða við trésmíðar. Hann mun hafa byggt mjög mörg framshús í Skagafirði (við Vallnabæinn og víðar).
Guðjón Gunnlaugsson í Vatnskoti (1862-1945) var einnig við smíðaranr í Ási. Hann lærði trésmíði í Reykjavík. Flutti til Skagafjarðar 1886, vann við húsasmíðar í Hegranesi og kynntist þar konuefni sínu. Hann var bóndi í Vatnskoti frá 1890-1931 (Ólafur í Ási átti Vatnskot og mun Sigurður sonur hans haf búið þar á undan Guðjóni. Sigurður flutti í Helluland. Vatnskot heitir nú Svanavatn).
Sveinbjörn Sveinsson (1855-1939) bóndi á Hornbrekku á Höfðaströnd var eftirsóttur hleðslumaður og verkamaður við byggingarvinnu. Hann var yfir kjallarahleðslunni í Áshúisnu og sinnti trésmíði einnig.
Fjórði smiður hússins var Hallgrímur Friðfinnsson sem lítið er vitað um, en hann var fullgildur smiður.