Sigurlaug Gunnarsdóttir í Ási (1828-1905) var mikil hannyrðakona og framfarasinni og hafði mikil áhrif á samtíð sína. Það var Sigurlaug í Ási sem kallaði saman kvennafund til að tala um þjóðbúninga, rekstur heimilis og hreinlæti. Þetta var árið 1869 og Kvenfélag Rípurhrepps rekur upphaf sitt til þess fundar, sem gerir það að elsta kvenfélagi landsins. Sigurlaug var sennilega fyrsta konan sem saumaði faldbúning eftir hugmyndum Sigurðar Guðmundssonar málara, sem var heimilisvinur í Ási. Það var ekki tilviljun að Sigurlaug saumaði búning eftir hans fyrisögn. Hún var annáluð hannyrðakona og mikil áhugamanneskja um þjóðlegan klæðnað, sem á þeim tíma tók námsstúlkur inn á heimili sitt um lengri og skemmri tíma. Sigurður þekkti vel til Ásheimilisins. Hann var náfrændi Ólafs bónda og þeim Sigurlaugu var jafn annt um að fólk hirti sig og hús sín vel og hefði allt þjóðlegt í fyrirrúmi. Fjöldi ungmenna kom í Ás í vist og Sigurlaug kenndi þeim ýmislegt gagnlegt til munns og handa, en hún var einnig meðal fyrstu kvenna í Skagafirði sem vélvæddi heimilishaldið.
Sigurlaug og Ólafur í Ási eignuðust tíu börn, en upp komust aðeins 5, ein dóttir, sem lést 24 ára og 4 synir. Elsti sonur hennar erfði því skautbúninginn, með þeim orðum að hann mætti aldrei fara úr ættinni og skyldi fylgja Sigurlaugarnafninu. Sigurlaug Guðmundsdóttir, sem síðast átti búninginn, taldi hann hafa það mikið sögulegt gildi að hún ákvað að gefa hann til Byggðasafns Skagfirðinga. Var búningurinn afhentur á kvenréttindadaginn 19. júní 1999 við hátíðlega athöfn, til minningar um merka konu og framlag hennar til samfélagsins, en þá voru 130 ár liðin frá því hún kallaði til fyrsta kvennafundar á Íslandi árið 1869. |
Hannyrðakonan Sigurlaug
Sigurlaug Gunnarsdóttir var fædd að Skíðastöðum í Laxárdal 29. mars 1828 og ólst þar upp. Hún giftist Ólafi Sigurðssyni bónda, umboðs- og alþingismanni í Ási vorið 1854. Fluttist hún þá í Ás og höfðu þau hálfa jörðina þar til faðir Ólafs lést. Þeim gekk vel, urðu brátt fjáð og bjuggu miklu fyrirmyndarbúi. Sigurlaug var dugleg kona, miklum hæfileikum gædd og afar námsfús. Var talið að hún væri ein mest menntaða kona í Skagafirði á sínum tíma. Henni er svo lýst: „Sigurlaug var að allra dómi hin mesta búsýslu og fyrirmyndar húsmóðir, glaðlynd, gestrisin og rausnarleg, hjálpfús við bágstadda og nærfærin við sjúka“ (Hlín 1928:92), mikill skörungur og ákveðin.
Heimilisiðnaður var í hávegum hafður á Ásheimilinu og óf Sigurlaug sjálf í klæði, sjöl, klúta og hversskonar dúka til fatagerðar. Ekki vantaði hana vinnukonur því mjög var eftirsótt að koma dætrum að hjá henni og dvöldust þær þá á heimili hennar annaðhvort sem vinnukonur og fengu þá nokkra tilsögn í hannyrðum eða þær voru hjá henni eingöngu til náms. Það mun hafa viðgengist lengst af hennar búskap. Árið 1877 var stofnaður Kvennaskóli Skagafirðinga og var hann rekinn fyrsta árið að Ási á heimili þeirra hjóna, en lenti svo á flakki milli bæja. Árið 1881 gaf Ólafur sýslunefnd leyfi sitt til að byggja mætti kvennaskólahús að Ási. Sýslusjóður, amtsráð og landsjóður lögðu til styrki en timbrið kom ekki á réttum tíma því lítið var um siglingar til Ísland þau árin af völdum hafíss. Menn voru líka á báðum áttum um hvort skólinn ætti að vera í Ási og endaði með því að Skagfirðinga tóku upp samstarf við Húnvetninga um að reka kvennaskóla í Ytri-Ey og bændaskóla að Hólum í Hjaltadal, sem settur var árið 1882. Þetta var ári áður en húsasmíðin gat hafist í Ási. Þau hjónin létu þetta ekki á sig fá og keyptu timbrið sjálf og reistu húsið á næstu þremur árum. Er þetta hús var risið stóðu tvö timburhús í Ási, sem var fremur óvenjulegt í sveit á þessum tíma og í báðum nutu piltar og stúlkur handleiðslu í ýmsu handverki og hannyrðum, svo sem útsaumi og knippli, vefnaði og prjónaskap.
Áshjónin voru samhent í að vélvæða heimilishaldið og voru bæði framsýn og nýjungagjörn. Þau pöntuðu erlendis frá margskonar vélar sem þekktust varla hérlendis. Saumavél keypti Sigurlaug án þess að hafa séð slíkan grip, en það stóð ekki í vegi fyrir henni. Fannst henni mikið til vélarinnar koma því hún flýtti mjög fyrir klæðagerð fyrir mannmargt heimilið. Gestir komu víða að til að líta gripinn augum, því margir voru vantrúaðir á að vél gæti leyst mannshöndina af. Árið 1874 keypti hún prjónavél. Í fyrstu reyndi hún að fá konur í sveitinni til að kaupa hana með sér en þær töldu sig ekki hafa not fyrir hana. Varð úr að Sigurlaug keypti hana ein og þrátt fyrir að allar leiðbeiningar væru á þýsku komst hún fljótt uppá lag með vélina og fór að kenna stúlkum að vélprjóna.
Er sauma- og prjónavélarnar voru komnar, var næst á dagskrá að fá hraðvirkari vefstól eins og tíðkaðist í Danmörku og 1879 sendu þau hjón soninn Gunnar þangað til vefnaðarnáms. Kom hann heim árið 1880 með uppdrátt að hraðskyttuvefstól sem var smíðaður um sumarið. Einnig kom hann með dúkapressu og vél til að skera ló. Var mikið ofið í Ási og Gunnar kenndi mörgum drengjum að vefa. Lóskurðarvélin náði ekki miklum vinsældum en dúkapressan var mikið notuð og kom ósjaldan fyrir að ungfrúrnar sprettu pilsum og peysum sínum í sundur til að láta pressa þau. Sendi fólk úr næstu sveitum voðir í Ás til pressunar.
Nokkrum sinnum boðaði Sigurlaug konur úr sveitinni saman til funda og var þá talað um pilsaþyt og pilsafundi. Samkoma sem þessi þótti raunar slík nýlunda að konurnar fundu sig knúðar til þess að gera grein fyrir sínum málum eins og sjá má í tímaritinu Norðanfara árið 1869. Orðrétt segir þar: „Af því menn eiga ekki að venjast því að konur í sveit eigi fundi eða samkomur með sjer, þá má búast við, að ýmislega sje dæmt um þessa fundartilraun vora af þeim, sem til spyrja eptir sögusögnum, og fyrir þá sök þótti mjer eigi ónauðsynlegt að skýra frá fundinum opinberlega; eigi til þess, að setja hann jafnhliða fundum heldri manna, heldur einungis til að sýna tilgang hans, sem jeg vona verði virtur á betra veg af þeim, sem íhuga búnaðar ástand almennings og hversu miklu konur koma til leiðar, bændum sínum og búi til falls eða viðreisnar . . . En það er von mín, að viðleitni vor beri einhvern ávöxt, og það því fremur, að konur í öðrum sveitum vildu gjöra hið sama; sem finna til þess með oss, hvað mörgu er ábótavant, . . . Við erum líka fæstar menntaðar sveitakonurnar, og þurfum því fremur að læra hver af annari“ og undir ritar „ein af fundarkonunum“. Þarna voru að verki framsýnar húsmæður sem vildu taka beinan þátt í þjóðmálabaráttunni. Upp úr þessu varð til fyrsti kvennaklúbburinn sem stofnaður var á Íslandi. Konurnar hittust og ræddu ýmis fleiri velferðarmál og það sem betur mátti fara í daglegu lífi.
Sigurlaug var ekki einungis harðdugleg húsmóðir og hannyrðasnillingur. Hún var einnig yfirsetukona (ljósmóðir) sveitarinnar þar til hún lést og naut ávallt virðingar sveitunga sinna í því starfi. Hér er hluti ljóðs sem Jónas Jónsson (1840-1927) bóndi og yfirsetumaður í Hróarsdal og samstarfsmaður til margra ára flutti við útför hennar að Ríp 31. júlí 1905:
,,Mæli jeg hjer að moldum merkiskonu, skilnaðarorð þau er skap mitt býður" : Hjer er þá lagður til hvíldar síðustu langþjáður líkami listakonu húsfrú Sigurlaugar, góðfrægrar, Gunnarsdóttur. Hún var systir blíð hinum sorgmæddu og þjáðu, móðir viðkvæm munaðarlausum, örlyndur gefandi hinna örbirgu. Enda var færi á oft það að sýna, því lengi hún með láni frábæru gegndi ljósmóður líknarstarfi. Gott var þjer systir, að ganga til hvíldar, eftir langan og afkastamikin lífsdag liðinn til ljóss og sælu. Eftirdæmi hjer eigið þjer, systur, um húsmóðurlega heimilisprýði, ráðsvinnu, risnu og ríklyndi, Fjelagsanda og framkvæmdarsemi, listfengi, ljúfmennsku og líkn til aumra. |
Sigurður málari
Sigurður Guðmundsson fæddist að Hellulandi í Skagafirði 9. mars 1833. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Ólafsson og Steinunn Pétursdóttir. Steinunn var föðursystir Ólafs í Ási. Sigurður ólst upp á Hellulandi og Hofdölum. Hann var ekki mikið fyrir bústörfin og hugurinn stefndi annað, „var snemma skarpur, orðhagur, en lítt vinnugefinn til annars en teikna og tálga“ (Jón Auðuns, 1975).
Í kofforti Sigurðar sem nú er geymt á Þjóðminjasafni Íslands var að finna margar teikningar eftir Sigurð ungan og bera þær glöggt vitni um hæfileika hans. Foreldrar hans sáu að framtíð drengsins lá ekki í búskap en einhverja menntun yrði hann að fá og 16 ára var hann sendur með haustskipinu frá Hofsósi til Kaupmannahafnar, í iðnnám. Þar fór hann í vist til málara sem málaði híbýli og húsgögn fyrir fólk. Sigurður sá í hvað stefndi og flúði úr vistinni. Með aðstoð góðra manna komst hann að hjá virtum prófessor og kvöldkennslu fékk hann í listaháskólanum endurgjaldslaust, vegna þess hve hæfileikaríkur hann þótti. Heima á Íslandi hófust menn handa við að safna fé fyrir þennan efnilega unga mann sem listfræðingar í Kaupmannahöfn lofuðu svo mjög. Gekk það mjög vel og fékk Sigurður styrki árin sem hann var í námi. Listabrautin virtist blasa við Sigurði, en þá sökkti hann sér í önnur viðfangsefni. Hann sagði svo til skilið við málaralistina og snéri sér að menningarsögu og þjóðháttum og í skoðun á daglegu lífi fólks fyrr á tímum. Hann las Íslendingasögurnar fram og til baka og allt sem hann komst yfir um lífshætti fyrr á tíð og hafði mestan áhuga á klæðnaðinum. Hugmyndir hans þar að lútandi voru svo gefnar út í Nýjum félagsritum 1857 og bar greinin heitið: Um kvennbúnínga á Íslandi að fornu og nýju. |
Í greininni talaði hann um hversu sorglegt það væri að Íslendingar væru að tapa séríslensku einkennum sínum og hvatti fólk til að halda í það þjóðlega. Hans fyrsta markmið var að fá konur til að taka upp faldbúninginn í nýrri og fegurri mynd. Sigurður kom heim til Íslands frá Kaupmannhöfn vorið 1858. Fljótlega eftir heimkomuna veitti hann ungmennum leiðsögn í „dráttlist“. Það vakti ekki beinlínis fyrir honum að ala upp listamenn heldur frekar að ná unga fólkinu á sitt band og kenna þeim að draga upp myndir fyrir þjóðlegan útsaum, þá fyrst og fremst fyrir kvenbúninga. Kennsla Sigurðar varð til þess að margar af hugmyndum hans varðveittust. Það var mikið að gera hjá Sigurði við að gera uppdrætti fyrir konur víðsvegar um landið til ísaums fyrir faldbúninga og aðrar hannyrðir. Fannst honum það skylda sín og kappsmál að endurvekja hin fornu gildi. Má segja að konur þessa lands hafi stutt hugmyndir hans með þeim mikla áhuga sem þær sýndu vinnu hans.
Sigurður lést eftir mikil veikindi 7. september 1874. Séra Matthías Jochumsson flutti líkræðu yfir honum og meðal þeirra sem fylgdu honum til grafar voru nokkrar konur klæddar skautbúningi með svartan fald á höfði.
Skautbúningurinn Sigurður hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt væri að gera fallegan, þægilegan og ekki allt of dýran hátíðarbúning fyrir kvenfólk. Hann studdist við rannsóknir sínar á klæðnaði kvenna og sérstaklega gamla faldbúningnum. Sigurður sagði að: „Allur búningurinn þyrfti að vera liðlegri, ef menn vilja hafa hann bæði fagran og haganlegan“ (Sig. Guð. 1857:46). Hann taldi að konur ættu að bera linda- eða sprotabelti við búninginn, þar sem þau væru bæði fallegri og þau mætti stytta og lengja að vild. Konur ættu að vanda beltin sem mest hvort sem þau væru útsaumuð eða úr silfri og með hringju þannig að þau yrðu aðalskrautið á búningnum. Hann áleit að konur ættu ekki að bera hálsmen nema hálsinn væri ber, og þá frekar lítið. Honum fannst algjör óþarfi að hylja hárið undir faldinum. Um það sagði hann: „Ég skil ekki hvers vegna þér ætíð hyljið hárið gjörsamlega, þegar þér berið fald; hárið er álitið eitthvað hið fegursta á konunni, en það er óþarfi fyrir mig að segja yður þetta, þér vitið það sjálfar“ (Sig. Guð. 1857:47). Hann vildi ekki að konur notuðu hempur hversdags en tækju upp möttul við hátíðlegri tækifæri því hann væri bæði fallegri og liðlegri. Svuntu væri óþarfi að bera við faldbúninginn því hún ætti einfaldlega ekki við. Á samfellunni þyrftu ekki að vera þykkir borðar heldur mæltist hann til þess að sauma í fötin sjálf lilju eða laufaviðarbekk en hann mætti ekki vera of breiður. Sama sagði hann um laufaviðargreinar á treyjunni, þær ættu að vera saumaðar í klæðið eða sem þynnstar til þess að treyjan yrði ekki of þykk á brjóstinu og aflagaði þar með ekki vöxtinn. Hann vildi að treyjan næði niður undir belti svo hún virtist ekki vera af minni konu. „Pípu- eða oddakragi“ gæti verið á treyjunni í stað svarta útsaumaða kragans á faldbúningnum, tilgangur þessa kraga væri að vernda hálsmálið á treyjunni fyrir svita. Þær sem ekki vildu pípukragann gætu látið treyjuna vera útsaumaða í kringum hálsmálið og gæti það verið framhald af útsaumnum sem væri framan á treyjunni. Auk þessa alls hannaði hann nýtt útlit á faldinn sem var að öllu leyti haganlegra. Sigurður hafði þetta að segja um faldinn: „Ég get ekki trúað, að þér viljið afneita faldinum gamla, fyr en ég þreifa á því sjálfr, því þér sviptið þá búninginn því frægasta einkenni er skáldin frá elstu fornöld hafa einkennt hina norrænu konu með. ... Látið því faldinn ættmæðra yðar vera yðar heiðursmerki, af því að þær báru hann á undan yðr á höfðum sér, sem sigruðu flestar konur með vitsmunum, trygð, kurteisi og skörúngskap, en gætið yðar, ef þér ætlið að kasta honum, að þér ekki kastið um leið þjóðerni, trygð og skörúngskap hinna fornu kvenna“ (Sig. Guð. 1857:53). |
Sigurður málari dvaldi í Ási sumarið 1856 (Minningarrit, 1875:6) og ræddu þau Sigurlaug hugmyndir hans mikið. Eftir að hann fór frá Ási voru samskipti Sigurlaugar og hans í gegnum bréfaskriftir milli hans og Ólafs. Bréf Ólafs hafa varðveist sem og klæðisbútur með útsaumi sem Sigurlaug hafði sent Sigurði. Hann sendi Sigurlaugu hugmyndir og teikningar sem hún vann úr og saumaði. Varð úr að Sigurlaug hóf að sauma búning eftir fyrirsögn Sigurðar árið 1860. |
![]() |
Á búningi Sigurlaugar sem varðveittur er í Byggðasafni Skagfirðinga er skatterað mjög litfagurt melasólarmunstur á samfellu og möttul, sem Sigurlaug hefur útfært eftir sínu höfði. Á treyjubörmum og ermum er hins vegar hið vel þekkta hrútaberjalyngsmunstur. |
Beltið og koffrið við búninginn voru sérstaklega unnin fyrir Sigurlaugu. Sigurður teiknaði og nafni hans og vinur, Vigfússon, gullsmiður og fornfræðingur smíðaði þau. Beltið er sprotabelti, samansett úr 15 víravirkisstykkjum, en koffrið er úr 4. Koffrið er í sama stíl og sprotabeltið. Elsa E. Guðjónsson textíl- og búningafræðingur, sagði búninginn sem Þjóðminjasafnið varðveitir, vera eldri en þennan. Sá búningur er með blómstursaumi og svokölluðu býsönsku munstri (Elsa E. Guðjónsson,1994:118-119). Ekki er útilokað að það sé búningurinn sem hún var að vinna árið 1860. Þessi er úr erlendu klæði og útsaumaður með erlendu zephyrgarni (siffrugarni). Orkeraða blúndan á ermum og kraga er ekki upprunaleg. Hún var sett á búninginn 1969 í stað svipaðrar blúndu, þegar búningurinn var lánaður á 100 ára afmæli kvenfélaganna. Faldblæjan er ný, gefin af Guðrúnu Hildi Rosenkjær árið 2015 og er lík kremlitaða faldinum sem var við búninginn á fyrri hluta 20. aldar. |
Vitað er að Sigurlaug kom fram í búningi með þessu lagi fyrst skagfirskra kvenna í brúðkaupi þann 19. júní 1860 og lýsir Ólafur því allítarlega í bréfi til Sigurðar. Brúðguminn, séra Davíð Oddsson, færði Sigurlaugu sjálfur tilbúinn fald frá Sigurði að sunnan, en annað vann Sigurlaug sjálf.
Árið 1859 er getið um konu í Reykjavík sem skrýddist skautbúningi fyrir brúðarbúning. Skautbúningur þessi hafði verið unnin eftir hugmyndum Sigurðar og kemur það fram í vasadagbók hans 1861, þar sem stendur: „föstudaginn þan 21 october 1859 bar fist ein stúlka nía faldin og koffur og treyjuna og slör lín kraga og fleira með nía en þó gamla sniðinu, á sínum bruðkaupsdegi hún hét Sigríður og var guðmundsdóttir, en brúðgumi hét guðbrandur“ (Elsa E. Guðjónsson 1988:28). Um þennan búning er ekki annað vitað.
Nokkuð algengt var að konur notuðu skautbúning sem brúðarbúning á seinni hluta 19. aldar og á fyrri hluta þeirrar 20. Nú til dags skarta fremur fáar konur skautbúningi nema við hátíðlegustu tækifæri. Árið 1999 var saumaður slíkur brúðarbúningur og var einvalalið kvenna kallað til verksins. Saumaskapurinn sjálfur tók 6 mánuði, baldýringin 330 klukkustundir og útsaumurinn í samfelluna 151 klukkustund. Af þessu má sjá að konur fyrr á tímum hafa unnið ótrúlegt verk, auk þess sem þær unnu þessa fínu handavinnu við misjafnar aðstæður og jafnvel við kertaljós eftir langan vinnudag. Þær voru kjarnakonur.
Texti þessa þáttar er byggður á lokaritgerð Idu Bjargar Unnarsdóttur til B.Ed. prófs við Kennaraháskóla Íslands vorið 2002, en ritgerð hennar fjallar um skautbúning (BSk.1998:207) Sigurlaugar í Ási, sem sýndur er í Áshúsinu. Ritgerðin var unnin í samvinnu við safnstjóra byggðasafnsins með það að markmiði að hún nýttist sem heimild fyrir áhugasama netverja og aðra gesti safnsins.
Útsaumaða spjaldið sem prýðir þennan þátt, hjá erfiljóði Jónasar í Hróarsdal um Sigurlaugu var haft sem fyrirmynd að útsaumi á sparibúningi fyrir starfsfólk safnsins, sem við móttöku gesta klæðast 19. alda búningum, í samræmi við hús og sýningar safnsins í Glaumbæ og Áshúsi.
Heimildaskrá
Aðalheiður B Ormsdóttir. 1987. Hjónin í Ási. - Sigurlaug Gunnarsdóttir og Ólafur Sigurðsson. Við ósinn. Saga kvennasamtaka í Hegranesi, Hins skagfirska kvenfélags og Kvenfélags Sauðárkróks (24-28). Reykjavík, prentsmiðjan Oddi hf.
Elínbjört Jónsdóttir. 2000. Brúðarbúningur Margrétar Ragnarsdóttur. Hugur og hönd, rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 2000 (26-29).
Elsa E Guðjónsson. 1988. Til gagns og fegurðar. Sitthvað um störf Sigurðar málara Guðmundssonar. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélgas Íslands 1988 (26-31).
Elsa E Guðjónsson. 1994. Skautbúningur Sigurlaugar í Ási. Gersemar og þarfaþing (118-119). Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag.
Guðmundur Ólafsson. 1928. Sigurlaug Gunnarsdóttir í Ási í Hegranesi. Hlín 12 (90-96).
Jón Auðuns. 1972. Sigurður Guðmundsson málari. Reykjavík, Leiftur.
Minningarrit eptir Sigurð Guðmundsson málara. Sigurður Guðmundsson 1833-1874, 1875 (3-10). Reykjavík.
Norðanfari. 1869. Akureyri.
Sigríður Sigurðardóttir. Nánd nýrra tíma. Um félagsskap skagfirskra kvenna, 1985. BA-ritgerð í sögu frá Háskóla Íslands.
Sigríður Sigurðardóttir. Ás í Hegranesi 1988 (3-11). Hvítt og svart, Sauðárkróki.
Sigurður Guðmundsson. 1857. Um kvennbúnínga á Íslandi að fornu og nýju. Ný félagsrit 17 (1- 53).Svavar G. Jónsson. 2001. Fjallkonan er Ísland. Morgunblaðið, 6. júlí. Bls. 2 B.
Munnlegar heimildir:
Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri. Vor 2002.
Sigurlaug Guðmundsdóttir afkomandi. Vor 2002.