Skagfirska kirkjurannsóknin

Árið 2012 var gefið út rit um einn áfanga kirkjurannsóknarinnar.

Skagfirska kirkjurannsóknin er þverfagleg rannsókn sem fram fer á vegum Byggðasafns Skagfirðinga. Rannsóknin beinist einkum að fornum kirkjugörðum og kirkjumunum. Rannsóknin hófst árið 2007. Upphaf hennar má rekja til áranna 1999 og 2003 þegar safnið hélt sýningu um forna kirkjumuni á Hólum í tilefni kristnitökuafmælishátíðarhalda (999/1000) og þegar Byggðasafnið og Hólarannsóknin, sem safnið var þá í samstarfi um við Hólaskóla og Þjóðminjasafn Íslands, hóf rannsókn á 11. aldar kirkjugarði í Keldudal í Hegranesi. Keldudalskirkjugarður kom óvænt fram við byggingaframkvæmdir. Guðný Zoëga, fornleifafræðingur og deildarstjóri Fornleifadeildar Byggðasafnsins, stýrði rannsókninni í Keldudal og hefur unnið úr öllum gögnum sem snertir hana. Sigríður Sigurðardóttir, sagnfræðingur og safnstjóri Byggðasafnsins, hefur skráð og rannsakað kirkjumuni í flestum kirkjum Skagafjarðar. Samantekt um merkustu kirkjumuni í tólf friðlýstum kirkjum prófastsdæmis voru birtar í ritröðinni Kirkju Íslands, bindi 5 og 6, sem kom út 2005. Aðrir starfsmenn safnsins sem vinna að rannsókninni eru Guðmundur St. Sigurðarson, fornleifafræðingur og Bryndís Zoëga, landfræðingur. Frá sumrinu 2012 hefur bandarískt rannsóknarteymi, sem hefur unnið við fornleifa- og jarðsjárrannsóknir í Skagafirði frá 2002, tekið þátt í kirkjurannsókninni, sem og minjavörður Norðurlands vestra í einstaka þáttum hennar.

Á GAGNABANKA hér á heimsíðunni má fylgjast með framvindu rannsóknarinnar.  

Glaumbær  |  561 Varmahlíð  |  Sími 453 6173  |  byggdasafn@skagafjordur.is