Handverk sem tengist hverfandi hefðum er hluti af dýrmætum menningararfi, sem mikilvægt er að standa vörð um. Dæmi um það er vinnsla og meðferð torfs, grjóts og timburs. Sú handverksþekking er forsenda þess að hægt sé að varðveita og viðhalda stórum hluta menningarminja þjóðarinnar. Allir þeir sem kynni hafa af varðveislu, t.d. á byggingararfi okkar, hafa jafnframt orðið þess áskynja að hann glatast á skömmum tíma án fólks með reynslu og þekkingu á þeim handverksaðferðum sem byggingararfurinn er sprottinn af.
Í tilraunaskyni hefur verið boðið upp á námskeið í annars konar handverki t.d. að vefa í kljásteinavefstað og hvernig hægt er að vinna úr hrosshári.