Torfhleðslunámskeiði 2021 lokið

Þriggja daga námskeið í torfhleðslu var haldið á Tyrfingsstöðum dagana 10-12. september sl. 

Þátttakendur mættu galvaskir í Tyrfingsstaði þann 10. september, þar sem kennari á námskeiðinu og hleðslumeistari, Helgi Sigurðsson tók á móti þeim. Verkefnið sem hópurinn tók sér fyrir hendur á námskeiðinu var að hækka veggi hlöðunnar sem stendur norðan við gamla bæjarhúsið. Hlaðan hefur verið, og verður áfram, viðfangsefni á námskeiðum, enda um háa og öfluga veggi að ræða. Yfir helgina fengu þátttakendur fræðslu um efnisval og sýnikennslu í efnistöku, þeir stungu upp hnausa og fengu að spreyta sig á ristu strengja og torfa með torfljá. Hópurinn sá að mestu um að stinga upp klömbruhnausana sem notaðir voru við hleðsluna og fluttu heim að hlöðu. Hlaðnar voru nokkrar raðir (umför) ofan á veggi hlöðunnar og gekk verkið ljómandi vel. Blautt var á köflum um helgina, þá sér í lagi á sunnudaginn, en hópurinn lét hvergi á sér bilbug finna. Heitt var á könnunni í gamla bænum og gott að geta sest þar niður milli verka. Námskeiðinu lauk síðdegis þann 12. september.

Við þökkum hópnum fyrir skemmtilegar samverustundir um helgina og Stínu og Sigga, ábúendum á Tyrfingsstöðum, fyrir alla aðstoðina og notalegheitin!


FORNVERKASKÓLINN  | Aðalgötu 16B  |  550 Sauðárkróki  |  Sími: 453 5097  |  bryndisz@skagafjordur.is