Framkvæmdum á "fjárhúsunum út og niður" á Tyrfingsstöðum lokið í bili

Dagana 19-20 og 26-27 maí sl. var ráðist í framkvæmdir á Tyrfingsstöðum, en þá var klárað að reisa þak og tyrfa yfir „fjárhúsin út og niður“, sem svo eru kölluð.

Útihúsin samanstanda af tveimur samstæðum fjárhúsum og innangengt er í hlöðu úr báðum húsum. Norðara fjárhúsið var þegar fullreist, en komið er að viðhaldi. Torfveggir syðra hússins stóðu tilbúnir fyrir áframhaldandi framkvæmdir sem nú var ráðist í, en þær fólust m.a. í því að refta og setja vagla á grind, smíða framþil og gluggaramma, kljúfa rekavið og leggja árefti, strenghlaða gaflinn fyrir ofan þilið, leggja torfur á nærþak, rista þökur og loks tyrfa yfir.

Verkið var unnið af Fornverksmönnum, Helga Sigurðssyni, Stefáni og Viktori, með dyggri aðstoð frá ábúendum Tyrfingsstaða, í mikilli veðurblíðu, en 22°C mældust á staðnum á meðan framkvæmdum stóð.

Fleiri myndir má sjá á fb síðu fornverkaskólans: https://www.facebook.com/fornverkaskolinn.is/news_feed

 


FORNVERKASKÓLINN  | Aðalgötu 16B  |  550 Sauðárkróki  |  Sími: 453 5097  |  bryndisz@skagafjordur.is